LSR tapaði 101 milljarði

Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, var formaður nefndarinnar.
Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, var formaður nefndarinnar. Morgunblaðið/Kristinn

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) tapaði 101 milljarði á árunum 2008-2010, en sjóðurinn er stærsti lífeyrissjóður landsins. Lífeyrissjóður verslunarmanna tapaði 80 milljörðum og Gildi 75 milljörðum.

Héðinn Eyjólfsson, einn nefndarmanna í rannsóknarnefnd um starfsemi lífeyrissjóðanna, segir að tap sjóðanna sé mismikið, enda hafi þeir rekið misáhættusama fjárfestingastefnu. Sjóðir sem hafi fjárfest lítið í hlutabréfum og ekki keypt mikið af skuldabréfum fyrirtækja en lagt meiri áherslu á ríkistryggð skuldabréf hafi sloppið betur en þeir sem hafi fylgt áhættusamari fjárfestingastefnu.

Nefndin segir í umfjöllun um LSR og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga að sérstaka athygli veki að sjóðirnir hafi í árslok 2008 átt 11,5 milljarða í víkjandi lán í bönkum og sparisjóðum. Öll víkjandi lán voru afskrifuð þegar bankarnir féllu og þau koma ekki til með að nýtast til skuldajöfnunar við uppgjör á gjaldeyrisvarnasamningum.

Nefndin bendir einnig á að í árslok 2005 átti LSR 19,6 milljarða í skuldabréfum fyrirtækja. Tveimur árum síðar er þessi upphæð komin í 32 milljarða sem er aukning um 63%. Sjóðurinn tapaði 21,2 milljörðum á þessum skuldabréfum.

Vildu frekar fjárfesta innanlands

Nefndin fékk þau svör hjá stjórnarmönnum í LSR að stjórnin hefði gjarnan viljað setja meiri fjármuni í ríkisskuldabréf, en lítið framboð hefði hins vegar verið á slíkum bréfum. Stjórnin hefði frekar viljað fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum en að fjárfesta erlendis. Forstöðumaður eignastýringar kynnti fyrir stjórn að LSR ætti að fjárfesta meira á norrænum hlutabréfamarkaði. Stjórnin hefði rætt þetta á miðju ári 2007, en það tæki hins vegar langan tíma að breyta um stefnu auk þess sem fjárfestingaumhverfi lífeyrissjóðanna hefði á þessum tíma verið erfitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert