Aukakirkjuþing komið saman

Frá aukakirkjuþingi í dag.
Frá aukakirkjuþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Aukakirkjuþing var sett laust eftir hádegið í dag í Grensáskirkju. Megin efni þingsins er að ræða beiðni kjörstjórnar fyrir biskupskjör um breytingu á starfsreglum við framkvæmd kosninga til biskups Íslands.

Samkvæmt núgildandi reglum eiga að fara fram rafrænar kosningar, en kjörstjórnin metur það svo að slíkt fyrirkomulag sé ótryggt.

Í bréfi sem Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, sendi kirkjuþingsfulltrúum segir m.al: „rökstuddar efasemdir um að fyllilega sé unnt að tryggja óbrigðula framkvæmd rafrænna kosninga samkvæmt starfsreglum nr. 1108/2011 um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa. Kjörstjórn beinir því til mín sem forseta kirkjuþings að kanna hvort unnt sé að breyta gildandi reglum um rafræna atkvæðagreiðslu.[...] Fyrir aukakirkjuþingið mun verða lögð tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum nr. 1108/2011, sem felur í sér að horfið verði frá rafrænni kosningu við komandi biskupskjör og tekin upp fyrri aðferð um póstkosningu.“

Á vef kirkjuþings má finna upplýsingar um að á þinginu verði jafnframt lögð fyrir aukakirkjuþing tillaga um að þingið kjósi þriggja manna nefnd til að taka til endurskoðunar starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa.

Í samtali við sr. Halldór Reynisson, verkefnisstjóra fræðslumála hjá Biskupsstofu kom fram að nái tillagan fram að ganga verði horfið til fyrra kosningafyrirkomulags þar sem kjörseðlar verði sendir út og fram fari póstkosning.

„Ég á nú ekki von á öðru en að þetta verði samþykkt,“ segir Halldór aðspurður um umræður á þinginu.

Á kirkjuþingi sitja 29 fulltrúar, 17 fulltrúar leikmanna og 12 fulltrúar vígðra. Gert er ráð fyrir að aukakirkjuþingi ljúki um miðjan dag í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert