Krefjast aðgerða strax

Séð frá Hornbjargi suður Strandir. Snjóþungt er oft á þessum …
Séð frá Hornbjargi suður Strandir. Snjóþungt er oft á þessum slóðum. mbl.is

„Í dag býr sveitarfélagið við þær aðstæður að eiga að vera eyja þrjá mánuði á ári," segir í fréttatilkynningu sem Oddný S. Þórðardóttir, oddviti Árneshrepps á Ströndum, sendi frá sér í dag.

Hún bendir á að sveitarfélagið búi í dag við svokallaða G-reglu varðandi snjómokstur, en skv. upplýsingum á heimasíðu Vegagerðarinnar eru slíkir vegir einungis þjónustaðir á vorin og haustin þegar moksturs er þörf. Engin þjónusta er yfir háveturinn.

„Hluti íbúa sveitarfélagsins býr við algjöra innilokun þessa þrjá mánuði á ári. Hreppsnefnd hefur ítrekað beðið um að hreppurinn verði færður upp í  F-reglu, sem ekki er talið hægt, þar sem vegurinn sé ekki þjónustufær,“ segir í tilkynningunni.

Þegar átt er við F-reglu þá væri vegurinn þjónustaður tvo daga í viku. Fram kemur í tilkynningu frá Árneshreppi að vegurinn þarfnist uppbyggingar, en hann var ruddur með jarðýtu á árunum 1960-1965. Vill hreppsnefndin að byrjað verði að byggja veginn upp á erfiðum köflum á fyrirhuguðu framtíðarvegstæði.

„Nú er okkur alltaf núið því um nasir að við séum svo fá. En eins og góður maður sagði: „Vegurinn er ekki bara fyrir íbúa Árneshrepps heldur alla landsmenn og erlenda gesti líka.“ Í sveitarfélaginu Árneshreppi eru um 40 sumarhús í eigu einkaaðila, þessi hús eru flest heilsárshús og stórar fjölskyldur sem standa að þeim,“ segir að auki í fréttatilkynningunni.

Þá er bent á að uppbygging ferðaþjónustu hafi verið mikil og að þær fjárfestingar skili litlum arði á meðan ekki er fært á staðinn. Einnig er bent á að Norðurfjarðarhöfn er í sveitarfélaginu og að þaðan sé stutt á gjöful fiskimið. Oddvitinn segir að einhvers staðar sé vitlaust gefið og krefst aðgerða strax.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert