Netverslun í sögulegu hámarki

Brúnu umbúðirnar frá vefversluninni Amazon eru mörgum Íslendingum af góðu …
Brúnu umbúðirnar frá vefversluninni Amazon eru mörgum Íslendingum af góðu kunnar. Reuters

Íslendingar eru duglegir að versla í útlöndum, bæði á ferðalögum og í gegnum netið. Við gengishrun krónunnar 2008 dróst vefverslun snarlega saman, en hefur aukist aftur jafnt og þétt og nú er svo komið að Íslendingar versla meira í gegnum netið en nokkru sinni fyrr. Fleiri erlendar verslanir senda nú einnig beint til Íslands en áður.

Ætla má að jólaverslun Íslendinga hafi að talsverðu leyti farið fram gegnum netið í fyrra, því í nóvember 2011 afgreiddi Pósturinn yfir 14.000 bögglasendingar frá erlendum vefverslunum og hafa þær aldrei verið fleiri í einum mánuði. Sprenging hefur orðið í netkaupum á fáum árum, því til samanburðar má nefna að í nóvember 2003 afgreiddi Pósturinn 4.000 slíkar sendingar. Hafa þær því tæplega fjórfaldast á 8 árum.

Netverslun hrundi um leið og krónan

Ekki kemur á óvart að á hápunkti góðærisins 2007 voru Íslendingar mjög viljugir að eyða krónunum sínum í gegnum netið. Það ár komu 120.444 sendingar til landsins frá erlendum vefverslunum. Hrunárið 2008, þegar enginn vissi hvers virði ein króna var, héldu neytendur að sér höndum og sendingum að utan fækkaði um tæp 19% og hélt áfram að fækka 2009. Árið 2010 virðast kreditkortið hafa verið dregið fram aftur og í fyrra, 2011, versluðu Íslendingar meira á netinu en nokkru sinni fyrr. Þá komu alls 143.125 póstsendingar til landsins frá erlendum vefverslunum.

Að sögn Höllu Garðarsdóttur, deildarstjóra tollmiðlunar hjá Póstinum, eru það fyrst og fremst fjórir vöruflokkar sem Íslendingar girnast erlendis frá, en það er bækur, geisladiskar, dvd-diskar og fatnaður. Langmest er keypt í gegnum Amazon af bókum og diskum, en þegar kemur að fatnaði dreifast kaupin víðar. Bandarískar verslanir eru þó sívinsælar og gladdi það marga þegar verslanir eins og Macy's og Victoria's Secret bættust í hóp þeirra sem bjóða upp á póstsendingar beint til Íslands.

Skertur hlutur íslenskra verslana

Það má hugsa sér að ástæða þess að vefverslun nýtur sögulegra vinsælda nú sé þríþætt. Í fyrsta lagi er það auðvitað hið ótakmarkaða vöruúrval sem þar er að finna. Í öðru lagi er dýrt að versla á Íslandi og í þriðja lagi er líklegt að þeir sem ekki hafa efni á verslunarferðum í kreppunni snúi sér að netverslunum í staðinn.

Samtök verslunar og þjónustu sögðu nýverið frá því að Íslendingar kaupi, samkvæmt könnun Capacent, þriðjung af fatnaði sínum í útlöndum. Hlutfallið er hæst í barnafötum, enda eru þau oft mun dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum, þar sem virðisaukaskattur á barnaföt er víða mun lægri eða enginn.

Óhjákvæmilega hefur þetta áhrif á íslenska verslun, en auk þess hefur verið bent á að það séu í raun forréttindi ákveðinna hópa að geta verslað í útlöndum meðan aðrir þurfa að sætta sig við hærra verð.

Þetta kann þó að breytast, a.m.k. hvað barnaföt varðar, því í vikunni var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um að lækka virðisaukaskatt á barnaföt. Í umræðu um málið í gær vildu nokkrir þingmenn ganga lengra og endurskoða allt virðisaukaskattkerfið.

Barnagalli tvöfaldast í verði

Það er þó ekki alltaf sem netverslun borgar sig, því þótt uppsett verð sé kannski mun lægra en fyrir sambærilega vöru á Íslandi jafnast það oft út þegar ofan á bætast tollar og gjöld. Blaðamaður skoðaði sem dæmi vefverslun Victoria's Secret í Bandaríkjunum og notaði reiknivél á vef tollstjóra til að finna út álagninguna.

Valdir voru fjórir brjóstahaldarar og hljómar dæmið svona:

Uppsett verð: $200 = 24.602 krónur
Sendingarkostnaður: $46,99 = 5.780 krónur.
Almennir tollar: KR 4.559
Virðisaukaskattur: KR 8.912
Samtals: 43.853

Frá því brjóstahaldararnir eru settir í „körfuna“ og þar til þeir koma í hendur kaupanda hækkar því verðið um 19.251 krónur, eða rúm 78% af uppsettu verði.

Svipaða sögu var að segja af vefverslun Macy's, sem nýlega byrjaði að senda beint til Íslands. Valdir voru fjórir ungbarnasamfestingar, sem samtals kostuðu um 50 dali, eða rúmar 8 þúsund krónur. Að viðbættum sendingarkostnaði, tollum og virðisaukaskatti kosta samfestingarnir 18.579 krónur við komuna til landsins, rúmlega tvöfalt meira en uppsett verð sagði til um.

Þetta eru þó aðeins lítil dæmi og með útsjónarsemi má hæglega spara með því að leita uppi góð tilboð á netinu. Á meðan verðið heldur áfram að vera lægra og úrvalið margfalt meira er lítill vafi á því að Íslendingar munu halda áfram að kaupa vörur í gegnum vefverslanir.

Aldrei hafa komið fleiri pakkar frá erlendum vefverslunum til landsins …
Aldrei hafa komið fleiri pakkar frá erlendum vefverslunum til landsins en árið 2011. Mbl.is/Elín Esther
Vörurnar frá Victoria's Secret njóta mikilla vinsælda meðal íslenskra kvenna.
Vörurnar frá Victoria's Secret njóta mikilla vinsælda meðal íslenskra kvenna. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert