Hafnar því að bera ábyrgð á tapi lífeyrissjóðanna

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Baugs Group hf.
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Baugs Group hf. mbl.is/Ómar

„Ég hafna því alfarið að bera ábyrgð á tapi lífeyrissjóðanna á Glitni banka hf. Lífeyrissjóðirnir í landinu höfðu fjárfest í Glitni banka hf. frá stofnun hans, bæði í hlutabréfum og skuldabréfum,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi Baugs hf., í yfirlýsingu vegna útkomu skýrslu um fjárfestingar og starfsemi lífeyrissjóða á árunum í kringum bankahrunið.

Fram kemur meðal annars í skýrslunni að rúmlega helmingurinn af um 480 milljarða króna tapi lífeyrissjóðanna á árunum 2008-2010, eða 52%, hafi verið vegna fjárfestinga í félögum sem tengdust annaðhvort Exista eða Baugi Group.

Jón Ásgeir segir að lífeyrissjóðirnir hafi átt í Glitni áður en FL Group eignaðist 29% hlutafjár í bankanum vorið 2007. Þá hafi Baugur átt 20% hlut í FL Group og þannig átt um 9% hlut í Glitni beint og óbeint. Hann segir ennfremur fyrirtækin FL Group, Landic hf. og Teymi hf. hafi ekki verið undir meirihlutayfirráðum hans eða Baugs.

Jón Ásgeir segir tvö fyrirtæki undir yfirráðum sínum hafa fengið lán frá lífeyrissjóðunum, Hagar, sem hafi greitt upp sín lán við sjóðina í október 2009, og Baugur Group. Enn sé hins vegar ekki búið að gera upp bú þess síðarnefnda.

„Það eru forsvarsmenn lífeyrissjóðanna, sem báru ábyrgð á fjárfestingum þeirra og engir aðrir,“ segir Jón ennfremur og bætir við að sér komi á óvart að skýrsluhöfundar hafi ekki haft samband við forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sérstaklega eru nefnd í skýrslunni.

Hann leggur áherslu á að hrunið á Íslandi hafi ekki verið einstakur atburður í heiminum heldur hafi flest vestræn ríki gengið í gegnum svipaðar hremmingar.

„Hrunið verður ekki gert upp með skýrslunum sem eru einsleitar þar sem takmarkaður hópur fær aðgang að skýrsluhöfundum. Betur væri að það yrði sett upp sannleiksnefnd t.d á Alþingi og þar yrðu menn kallaðir fyrir líkt og gert er í Bandaríkjunum þá fengi þjóðin að heyra hvað gerðist í beinni útsendingu,“ segir Jón Ásgeir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert