Ekki tilefni til að víkja

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir að ekkert hafi komið fram í úttektarskýrslu Landssambands lífeyrissjóða sem gefi tilefni til að hann eigi að segja af sér. Hann var gestur í Kastljósþætti kvöldsins.

Fram kom í úttektarskýrslu Landssambands lífeyrissjóða að heildartap Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga hafi verið 100 milljarðar kr.

„Það er ekkert í skýrslunni sem gefur tilefni til þess að ég segi af mér. Það er ekkert sem kemur þar fram sem ekki hefur verið vitað áður og ekki hefur verið gerð ítarleg grein fyrir á okkar vegum í starfseminni, og í ársskýrslu sjóðsins,“ sagði Haukur.

Fram kom að Haukur hafi fengið greiddar 18,3 milljónir kr. í árslaun árið 2009. Haukur segir að allar upplýsingar um launamálin hafi verið gefnar upp í ársskýrslu sjóðsins í mörg ár. Að öðru leyti vildi hann ekki ræða sín launamál.

Hann segir að lífeyrissjóðirnir hafi verið að glíma við afleiðingar alvarlegrar alþjóðlegrar efnahagskreppu. „Mitt hlutverk er að reyna að takmarka tjónið og byggja upp að nýju. Og það ætla ég að gera,“ sagði Haukur.

Hann segir að meginniðurstaða úttektanefndarinnar í tengslum við tap lífeyrissjóðanna sé fall bankanna. „Þeir benda hins vegar á að það sé ýmislegt sem megi skoða og það munum við vissulega gera.“

Hann segir að öll gagnrýni sem hafi komið fram í skýrslunni verði tekin til greina.

Spurður út í viðskipti sjóðsins í félögum sem tengdust Exista og Baugi, þá segir Haukur að menn geti velt því fyrir sér hvort þetta hafi verið of stórt hlutfall í eignasafninu.

„En höfum það í huga að þessi félög voru fyrirferðarmikil á íslenskum hlutabréfamarkaði og fyrirferðamikil í útgáfu á skuldabréfum. Og lögin um lífeyrissjóði, þau gera ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir fjárfesti fyrst og fremst í skráðum bréfum. Þess vegna var það kannski eðlilegt að sjóðirnir voru að fjárfesta í þessum bréfum. En ég ítreka það og undirstrika það, að þarna voru menn í öllum tilvikum langt innan við þau mörk sem lífeyrissjóðum er markað í þessari löggjöf sem gilda um þá,“ sagði Haukur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert