Allir rólegir og frítt að drekka

Fjórar vélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli komast ekki að landgöngubrúm vegna …
Fjórar vélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli komast ekki að landgöngubrúm vegna veðurs. mbl.is/Ernir

„Flugstjórinn var að tilkynna að við þyrftum líklega að bíða í vélinni í tvo tíma í viðbót,“ segir Jón Helgason, sem situr fastur í flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Ekki er hægt að færa fjórar vélar að landgöngubrúm vegna veðurs.

Vélin sem Jón er í kom frá Amsterdam kl. 16 í dag og hafa farþegarnir því beðið í tvo tíma í vélinni og útlit fyrir að þeir þurfi að bíða í tvo tíma til. 

„Flugstjórinn er mjög almennilegur, gengur hér um og spjallar við fólk,“ segir Jón. „Núna er boðið upp á ókeypis drykki en það er ekki enn farið að veita afslátt af fríhafnarvarningnum,“ segir hann hlæjandi.

Jón segir fólk halda ró sinni, margir séu á rölti um vélina en aðrir horfi á sjónvarpið, lesi eða tali í símann.

„Ég er bara rólegur, kannski ég fari bara að horfa á Titanic í sjónvarpinu,“ segir Jón. „Þetta átti að vera þriggja tíma flug en er nú að nálgast fínasta Ameríkuflug.“

Jón segir að annað slagið titri vélin vegna vindsins. Lendingin hafi gengið vel og engar vísbendingar um að hávaðarok væri á jörðu niðri.

Hluti farþeganna er að fara í tengiflug svo líklega raskast þau ferðaáform.

Þá er seinkun á flugi Icelandair til Norður-Ameríku vegna veðursins; til New York, Boston og Orlando.

Frétt mbl.is um ástandið á Keflavíkurflugvelli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert