Í ljósi reynslunnar voru þetta mistök

Pétur H. Blöndal alþingismaður.
Pétur H. Blöndal alþingismaður. mbl.is/Ómar

Pétur H. Blöndal alþingismaður segir að í ljósi reynslunnar geti hann tekið undir að það hafi verið mistök af Alþingi að auka heimildir lífeyrissjóðanna til að kaupa hlutabréf. Nefnd sem rannsakaði lífeyrissjóðina gagnrýnir þessar lagabreytingar.

Alþingi breytt lögum um lífeyrissjóði á árunum 2004 og 2006 og jók heimildir þeirra til að kaupa hlutabréf úr 35% í 60%. Pétur var á þessu tíma formaður efnahags- og skattanefndar Alþingi á þessum tíma.

„Ef maður gerir ráð fyrir að stjórnir lífeyrissjóðanna séu faglegar og geri það sem þær eiga að gera þá ætti þetta vera allt í lagi. Þessi lagabreyting var rökstudd á sínum tíma með hætti að verið væri að auka möguleika sjóðanna til að fjárfesta. Lögin voru farin að þrengja að möguleikum sjóðanna til fjárfestinga.“

Pétur segir að hafa verið í huga að lífeyrissjóðirnir hafi að meðaltali verið langt undir mörkunum, bæði fyrir og eftir þessa lagabreytingu. Þetta hafi því ekki haft afgerandi áhrif varðandi áhættu sjóðanna.

„Þegar maður sér hvað stjórnir lífeyrissjóðanna voru lítið faglegar þá má segja að eftir á hyggja hafi þetta verið mistök. Það hefði þurft að halda betur í höndina á þeim og passa þá betur. Maður spyr sig hins vegar hvers vegna stjórnmálamenn þurfi að hafa vit fyrir stjórnendum lífeyrissjóðanna.“

Pétur segist ekkert vilja skorast undan ábyrgð í þessu sambandi þó honum finnist skýrsluhöfundar dálítið vera að reyna að sveigja ábyrgðina frá stjórnum lífeyrissjóðanna yfir á löggjafann.

Pétur segir að einhugur hafi verið á Alþingi um að gera þá breytingu að auka heimildir lífeyrissjóðanna til að kaupa hlutabréf. Stjórnarandstaðan hafi stutt breytinguna.

Pétur segir í samtali við DV í dag að hann útiloki ekki að segja af sér þingmennsku. Hann segir við mbl.is að þetta sé ekki nýjar vangaveltur „Ég hef alla tíð verið að velta fyrir mér að hætta á þingi. Þetta er ekkert óskaplega eftirsóknarvert starf. Mér finnst samt að stjórnir sjóðanna beri meiri ábyrgð í þessu máli og ættu frekar að hætta en ég. Mér þætti einkennilegt ef ég þyrfti að hætta út af þessu vegna þess að ég er búinn að vara við þessu alla tíð. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið 1994 sem hét „Fé án hirðis“, sem er einmitt um það sem gerist þegar menn fara að valsa með annarra manna fé.

Ég hef lagt fram frumvarp á Alþingi sem gengur út á að sjóðsfélagar eigi lífeyrissjóðina, að það eigi að upplýsa hvern sjóðsfélaga um verðmæti réttindi hans og einnig að sjóðsfélagar kjósi stjórnir sjóðanna. Það er einmitt lagt til í skýrslunni að sjóðsfélagar kjósi stjórnir sjóðanna, að vísu er tillagan dálítið veik því aðeins er lagt til að sjóðsfélagar kjósi einn fulltrúa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert