Samstaða gjarnan orðið fyrir valinu

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, sækir um listabókstafinn C fyrir Samstöðu, flokk …
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, sækir um listabókstafinn C fyrir Samstöðu, flokk lýðræðis og velferðar, fyrr í vikunni. mbl.is/Árni Sæberg

Heiti nýrrar stjórnmálahreyfingar Lilju Mósesdóttur hefur vakið nokkra athygli en hún nefnist sem kunnugt er Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar. Nafnið Samstaða hefur í gegnum tíðina annað slagið orðið fyrir valinu á ýmis samtök sem starfað hafa hér á landi og eru einhver þeirra enn starfandi.

Þannig hefur verið bent á að stjórnmálasamtök hafi starfað á Patreksfirði frá árinu 1998 og boðið fram síðan þá í sveitarstjórnarkosningum á staðnum og átt fulltrúa í bæjarstjórn. Einnig er til að mynda starfandi stéttarfélagið Samstaða í Vestur- og Austur-Húnavatnssýslu.

Þá beittu stjórnmálasamtökin Samstaða þjóðar gegn Icesave sér fyrir því á síðasta ári að þriðja Icesave-samningnum yrði hafnað og önnur samtök, sem kallað hafa sig Samstaða Íslendinga, beittu sér fyrir mótmælum á Austurvelli á síðasta ári gegn stöðunni í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ef farið er lengra aftur í tímann má síðan til að mynda nefna að stjórnmálasamtökin Samstaða um óháð Ísland störfuðu á árunum 1991-2002 og beittu sér meðal annars gegn því að Íslendingar gerðust aðilar að EES-samningnum og síðar Schengen-samstarfinu sem og Evrópusambandinu.

Þess má geta að samstaða um óháð Ísland var einkum skipuð fólki sem staðsett var á miðju og vinstrivæng íslenzkra stjórnmála en þau voru forveri samstakanna Heimssýn sem starfa enn í dag og starfað hafa sem þverpólitísk samtök fólks sem leggst gegn inngöngu í sambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert