„Verða á endanum að standa fyrir eitthvað“

mbl.is/Hjörtur

„Það er ljóst að skoðanakannanir benda til þess að það séu margir óákveðnir kjósendur, við erum að tala um 30-40% kjósenda, og það er lítið traust til Alþingis þannig að það er alveg ljóst að ný framboð gætu átt talsverða möguleika,“ segir Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur, spurður um þau nýju framboð sem tilkynnt hefur verið formlega um undanfarna daga. Það er framboð alþingismannanna Guðmundar Steingrímssonar annars vegar og Lilju Mósesdóttur hins vegar.

„Talandi um þessi framboð þá eru þau með sitjandi þingmenn sem ætti að gefa þeim ákveðið forskot fram yfir önnur ný framboð með algerlega óþekktu fólki. Á hinn bóginn eiga þau það sameiginlegt að það er talsvert erfitt að átta sig á því enn sem komið er nákvæmlega fyrir hvað þau standa,“ segir Einar og bætir því við að þeir sem hafa komið fram sem fulltrúar framboðanna séu auk þess úr talsvert ólíkum áttum.

Margt óljóst enn í þessum efnum

„Þessi framboð verða auðvitað á endanum að standa fyrir eitthvað og taka afstöðu til ákveðinna mála eins og til dæmis Evrópusambandsins og leggja einhverjar ákveðnar línur í efnahagsmálum og þá verður væntanlega hægt að skilgreina þau einhvern veginn á þessum hefðbundna hægri-vinstrikvarða. Það hefur sýnt sig að íslenskir kjósendur hafa átt frekar auðvelt með að staðsetja flokka á þeim kvarða,“ segir Einar.

Einar segir að það sé þó margt óljóst í þessum efnum. „Þetta eru ekki einu nýju framboðin sem boðuð hafa verið þannig að það verður spennandi að sjá hvernig málin þróast þegar kemur að kosningum,“ segir hann og bætir því við að enginn viti síðan hvenær þær kunni að verða.

„Eins og staðan hefur verið undanfarin ár og mánuði er svo sem hægt að búast við kosningum hvenær sem er. Það hafa þannig ýmsir haft það á orði, og það meira að segja stjórnarþingmenn, að ríkisstjórnin sé í raun minnihlutastjórn sem þarf að reiða sig á atkvæði einstakra stjórnarandstöðuþingmanna,“ segir Einar.

Kosningar gætu skollið á hvenær sem er

Einar bendir á að vinstristjórnir hafi aldrei setið út heilt kjörtímabil. „Þess vegna má kannski segja að menn hafi búist við því frá fyrsta degi að þessi ríkisstjórn kynni að springa. En ennþá situr hún allavega,“ segir hann. „Það hefur gengið á ýmsu, fólk fallið frá borði og til að mynda Evrópusambandsmálið verið mjög erfitt og ríkisstjórnin verið að fást við mjög erfið mál.“

Fyrir vikið standi ný framboð frammi fyrir því að kosningar gætu skollið á með mjög skömmum fyrirvara og því gæti skipt máli að vera undir það búinn sem fyrst. „Svo aftur hafa menn líka sett í flokka með mjög skömmum fyrirvara. Borgaraflokkurinn var ekki nema nokkrar vikur í fæðingu en fékk mjög fína kosningu á sínum tíma,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert