Vissara að vera hóflega bjartsýnn

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, er nú staddur í …
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, er nú staddur í Bretlandi. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra fór yfir stöðuna í makríldeilunni með sjávarútvegsráðherra Bretlands á fundi í Lúndunum í gær. „Ég skynjaði alveg sama áhuga á því að ná samkomulagi eins ég hef gert í Brussel og víðar. En að sama skapi þá viðurkenna menn það að þetta er dálítið flókið og ber mikið í milli.“

Steingrímur segir í samtali við mbl.is að fundurinn með Richard Benyon hafi verið góður og gagnlegur. Margt bar á góma, m.a. málefni makrílsins, og var farið yfir stöðuna

„Auðvitað binda menn vonir við að einhver árangur náist á fundunum í Reykjavík í næstu viku. En það er vissara að vera hóflega bjartsýnn því það ber mikið í milli ennþá,“ Steingrímur.

Allir verða að leggja eitthvað af mörkum

Síðasta fundi Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins um makrílveiðar lauk í 27. janúar sl. án niðurstöðu. Þar var hins vegar ákveðið að halda viðræðum áfram í Reykjavík 14.-17. febrúar nk. Rússar höfðu stöðu áheyrnaraðila á fundinum, sem fram fór í Björgvin í Noregi.

Steingrímur bendir á að makrílviðræðurnar séu marghliða og verið sé að takast á um ríka hagsmuni. „Það verða allir að hafa vilja til að mæta við borðið og leggja eitthvað af mörkum ef þetta á að nást saman.“

Þá segir hann að á fundinum í næstu viku verði gerð úrslitatilraun til að ná árangri áður en makrílveiðitímabilið hefst.

Þýðir ekki að hanga í sögulegum kvótum

Þá segir Steingrímur að ráðherrarnir hafi fundað um mikilvægi sjávarútvegsviðskipta Breta og Íslendinga. Einnig hafi verið rætt um mál sem beri efst í tvíhliða samskiptum ríkjanna og fiskveiðimálum almennt.

„Við ræddum þetta samstarf sjávarútvegsþjóða við norðanvert Atlantshafið og mikilvægi þess að menn vinni saman og séu meðvitaðir um þær breytingar sem verið er að takast á við. Ég fór yfir og útskýrði hvernig göngumynstur makrílsins hefur verið að þróast og hvaða áhrif þetta hefði inn í okkar lífríki, og þær breytingar sem við værum áð sjá á grundvelli loftlagsbreytinganna. Þetta væru hlutir sem menn yrðu að finna leiðir til að takast á við. Það þýddi ekki að hanga í einhverjum gömlum sögulegum kvótum, sögulegum viðmiðum þegar lífríkið væri að breytast. Menn yrðu að geta tekist á við það,“ segir Steingrímur.

Þá heimsótti Steingrímur nokkur fyrirtæki á Humbersvæðinu í gær og átti fund með bresk- íslenska verslunarráðinu. Þá var hann viðstaddur opnun fiskmarkarðar í Grimsby en mikil hátíðarhöld voru í tilefni opnunarinnar.

„Þeir hafa fjárfest hér mjög myndarlega í algjörri endurbyggingu markaðarins í Grimsby. Hann er orðinn alveg tipp topp, nýtískulegur og mjög tæknivæddur og flottur markaður. Auðvitað leggja þeir gríðarlega áherslu á mikilvægi viðskiptanna við Ísland,“ segir Steingrímur.

Steingrímur er væntanlegur til landsins í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert