Sjö klukkustundir á sjúkrahús

Unnið að snjómokstri í Víkurskarði fyrir nokkrum árum.
Unnið að snjómokstri í Víkurskarði fyrir nokkrum árum. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Sveitarstjórn Langanesbyggðar skorar á stjórnvöld að samþykkja ríkisábyrgð á fjármögnun framkvæmda við Vaðlaheiðargöng, svo hefja megi framkvæmdir sem fyrst.

„Fyrir skemmstu tók það sjö klukkustundir að koma sjúklingi á sjúkrahús á Akureyri eftir vinnuslys á Þórshöfn, ekki síst vegna ófærðar á Víkurskarði. Þar sem ekki var hægt að flytja hinn slasaða til Akureyrar með flugi vegna veðurs var hann því sendur af stað með sjúkrabíl. Í ljósi boðaðs niðurskurðar á sjúkrahúsinu á Húsavík er enn brýnna að greið leið sé fyrir sjúklinga til Akureyrar frá svæðunum austan Vaðlaheiðar,“ segir í tilkynningu.

Segir ennfremur í tilkynningu frá sveitarstjórninni að Vaðlaheiðargöng muni bæta búsetuskilyrði í sveitarfélögunum austan Vaðlaheiðar til muna.

„Þá mun umferðaröryggi aukast með tilkomu ganganna og aðgengi að hverskonar þjónustu, sem íbúum þessara sveitarfélaga stendur ekki til boða í heimabyggð, s.s. ýmiskonar heilbrigðisþjónustu, mun batna verulega.

Það skiptir miklu máli fyrir jaðarbyggðir á borð við Langanesbyggð að samgöngur til og frá sveitarfélaginu séu í góðu lagi. Í sveitarfélaginu er stunduð öflug útgerð og fiskvinnsla og þar fer fram mikil verðmætasköpun. Ætla má að verðmæti þeirra sjávarafurða sem framleiddar voru í Langanesbyggð á síðasta ári sé vel á sjötta milljarð króna.

Íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað, meðalaldur þeirra lækkað og skatttekjur á hvern íbúa hækkað umtalsvert á síðustu árum. Íbúar sveitarfélagsins þurfa aftur á móti að leggja í verulegan kostnað til að sækja ýmiskonar þjónustu sem aðrir landsmenn, einkum íbúar á suðvesturhorni landsins, telja sjálfsagða og auðfengna. Samgöngur á tímum síhækkandi eldsneytisverðs eru mjög dýrar og því situr landsbyggðin ekki við sama borð og íbúar höfuðborgarsvæðisins hvað varðar aðgengi að þessari þjónustu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert