Tekjur lífeyrisþega hafa lækkað

Um 26.500 fá ellilífeyri frá TR, en Íslendingar eldri en …
Um 26.500 fá ellilífeyri frá TR, en Íslendingar eldri en 67 ára er um 34.750. hag / Haraldur Guðjónsson

Tæplega 6.000 manns fá núna lágmarkstryggingu frá Tryggingastofnun, en þetta er um fimmtungur allra lífeyrisþega. Aukningin er mikil á síðustu árum. Ástæðan er sú tekjur margra ellilífeyrisþega hafa lækkað, sérstaklega fjármagnstekjur. Eins tryggir TR betur en áður stöðu þeirra sem minnstar tekjur hafa.

Talsvert hefur verið fjallað að undanförnu um tekjutengingu grunnlífeyris sem Tryggingastofnun greiðir. Þessi breyting kom til framkvæmda 1. júní 2009. Fyrir þennan tíma höfðu aðrar tekjur lífeyrisþega, s.s. launatekjur og fjármagnstekjur, skert grunnlífeyri, en tekjur úr lífeyrissjóðum höfðu hins vegar ekki áhrif á grunnlífeyrinn. Þetta breyttist 2009 og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur gagnrýnt þetta harðlega.

Það er búið að gera miklar breytingar á almannatryggingakerfinu á síðustu árum, bæði fyrir og eftir hrun. Fyrir kosningarnar 2007 gagnrýndu eldri borgarar mjög mikið tengingar bóta almannatrygginga við tekjur maka. Þessar tengingar voru afnumdar árið 2008, en þetta skipti miklu máli fyrir marga.

Lífeyrissgreiðslur TR hækkuðu um 20% árið 2008

Fleiri breytingar voru gerðar árið 2008 T.d. var frítekjumark vegna atvinnutekna hækkað og séreignasparnaðurinn hætti að skerða lífeyri. Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, segir að útgreiðslu vegna lífeyris hafi á árinu 2008 hækkað samtals um 20% vegna þessara breytinga. Hún segir að eftir hrunið hafi aftur verið gerðar breytingar.  Þá hafi menn tekið skref til baka sem hafi falið í sér skerðingu á greiðslum lífeyris frá TR um 5% miðað við árið 2008.

Sigríður segir að breytingarnar árið 2009 hafi miðað að því að verja stöðu þeirra sem verst stóðu, en vissulega hafi staða þeirra sem hærri tekjur höfðu versnað. Í september 2008 var tekin upp svokölluð lágmarksframfærslutrygging sem var hugsuð aðallega fyrir þá sem engar greiðslur höfðu úr lífeyrissjóðum. Núna fá um fimmtungur ellilífeyrisþega og þriðjungur öryrkja bætur á grundvelli lágmarkstryggingar.

Lágmarkstrygging er í dag 203.005 krónur fyrir þá sem búa einir (173.735 kr. eftir skatta) og 174.946 fyrir þá sem eru í sambúð (156.153 kr eftir skatta).

Hækka hjá TR þegar lífeyrissjóðirnir lækka

Eftir hrun neyddust lífeyrissjóðirnir til að lækka lífeyrisréttindi vegna áfalla sem sjóðirnir urðu fyrir í hruninu. Við þetta skertust greiðslur sjóðanna til lífeyrisþega um 8-20%. Tryggingastofnun bætti hins vegar þessa skerðingu að nokkru leyti upp því að réttindi eldri borgara hjá TR jukust þegar lífeyrissjóðsgreiðslurnar lækkuðu.

Sigríður segir að þeir sem eru með minnstar tekjur og eru með lágmarksframfærslu hjá TR fá skerðinguna frá lífeyrissjóðunum bætta að fullu.

Eftir þær breytingar sem gerðar voru á almannatryggingalögunum á árinu 2009 fækkaði þeim sem fá greiðslur frá TR. Ástæðan er tekjutenging grunnlífeyris. Lífeyrisþegum hjá TR hefur hins vegar að fjölga aftur. Sigríður segir að skýringin á þessari fjölgun sé sú að tekjur ellilífeyrisþega hafi verið að lækka svo mikið, þ.e. fjármagnstekjur, tekjur úr lífeyrissjóðum og aðrar tekjur. Fjármagnstekjurnar hafi sérstaklega lækkað mikið.

Fjármagnstekjur hrynja

„Fjármagnstekjur ellilífeyrisþega eru að hrynja og það er það sem fólk kvartar um við okkur. Fólk er þakklát fyrir hvernig við grípum það og hækkum bæturnar. Margir eru í öngum sínum og segir okkur kannski meira en afkomendum sínum. Fólk reynir að forðast að valda börnum sínum áhyggjum.

Það voru margir eldri borgara sem töpuðu miklu í hruninu. Sumir létu plata sig í bönkunum og standa því illa. Fólk í þessum hópi hefur verið að færasta niður í lágmarkstrygginguna,“ segir Sigríður.

Helmingur þeirra sem eru með lífeyrisgreiðslur eru með innan 85.123 krónur á mánuði úr lífeyrissjóði. Þeir sem eru með innan við 70 þúsund krónur frá lífeyrissjóði fá lágmarksframfærslutryggingu frá TR.

Sigríður Lillý Baldursdóttir.
Sigríður Lillý Baldursdóttir. mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert