Stjórnendur lífeyrissjóða ómaklega gagnrýndir

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Eggert Jóhannesson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist ósáttur við umfjöllun fjölmiðla um nýútgefna skýrslu úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða. „Umræðan um hana hefur verið mjög öfgakennd og æsifréttaleg og mér hefur fundist vanta meira jafnvægi,“ segir Gylfi.

„Það er mjög tíðrætt um ábyrgð stjórnarmanna og látið að því liggja að stjórnarmenn lífeyrissjóðanna áttu öllum öðrum fremur að vita hvað var að gerast hérna, á sama tíma og Seðlabanki, Fjármálaeftirlit, alþjóðastofnanir, matsfyrirtæki og hvaðeina gáfu þessu öllu saman grænt ljós,“ segir Gylfi og bætir við að ekki nema um þriðjungur stjórnarmanna í dag hafi verið í stjórn fyrir þremur árum. „Ímyndin sem er dregin upp og hamrað á er að þetta sé lokaður hópur sem geri ekkert og það á ekki við nein rök að styðjast. Það er talsverð hreyfing á fólki enda hámarksárafjöldi sem fólk má sitja í stjórn.“

Að hans mati hafa stjórnarmenn og stjórnendur lífeyrissjóðanna verið ómaklega gagnrýndir. „Það er hamrað á því í fréttum og spjallþáttum að í stjórnum lífeyrissjóðanna sé einhver spillingarstarfsemi. Síðan er eins og þeim, sem þar starfa, beri að sanna að svo sé ekki. Þeir sem eru með ásakanirnar þurfa ekki að leggja neitt fram um það á hverju þær eru byggðar. Þeir leiða líkum að því og segja „það hlýtur bara að vera“. Það er merkilegt að þjófkenna fólk „af því það hlýtur bara að vera“. Það hefur ekkert komið fram sem styður að stjórnir eða stjórnendur lífeyrissjóða hafi gerst sekir um slíka háttsemi.“

 Gylfi ritar ítarlegan pistil á heimasíðu ASÍ um málið og hann má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert