Taka ekki þátt í Breiðfylkingunni

Friðrik Hansen Guðmundsson, verkfræðingur og einn af forystumönnum Lýðfrelsisflokksins.
Friðrik Hansen Guðmundsson, verkfræðingur og einn af forystumönnum Lýðfrelsisflokksins.

Lýðfrelsisflokkurinn ætlar ekki að taka þátt í Breiðfylkingunni sem sett var formlega á laggirnar í gær en að henni standa Borgarahreyfingin, Hreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn auk fulltrúa sem sæti áttu á stjórnlagaþingi.

Þetta segir Friðrik Hansen Guðmundsson, sem situr í bráðabirgðastjórn Lýðfrelsisflokksins, á heimasíðu sinni. Hann segir að fulltrúar flokksins hafi rætt við aðila í Breiðfylkingunni en að fljótt hafi komið í ljós í þeim viðræðum að ekki væri flötur á samstarfi.

„Áherslur okkar í Lýðfrelsisflokknum sem endurspegla áherslur borgaraflokkanna / hægri flokkanna á Norðurlöndunum og Þýskalandi falla ekki að hugmyndafræði þeirra flokka sem ætla að standa að Breiðfylkingunni,“ segir Friðrik. Hann segir að margt komi þar til. „Þarf ekki annað en nefna afstöðuna til samstarfsins við Evrópu en öllum ætti að vera kunnug afstaða Frjálslynda flokksins og Hreyfingarinnar til þeirra mála,“ segir hann ennfremur.

Unnið hefur verið að framboði Lýðfrelsisflokksins um töluvert skeið en fulltrúar flokksins áttu áður í viðræðum við Guðmund Steingrímsson, fyrrv. þingmann Framsóknarflokksins, síðastliðið sumar um samstarf en Guðmundur fór þess í stað í samstarf við Besta flokkinn.

Friðrik segir að Lýðfrelsisflokkurinn stefni ótrauður á framboð í öllum kjördæmum fyrir komandi þingkosningar en hann staðsetur sig hægra megin við miðju og segir Friðrik fyrirmyndirnar vera borgaralega flokka í Þýskalandi og á hinum Norðurlöndunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert