„Hvar liggja mörkin?

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Hvar liggja mörkin? Er nóg að hafa sagt eitthvað, tjáð sig á bloggsíðu eða Facebook, nýtt sér tjáningarfrelsið og trúfrelsið til að missa starfið?“ segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á heimasíðu sinni í dag í tilefni af máli Snorra Óskarssonar grunnskólakennara, sem sendur var í launað leyfi í gær samkvæmt ákvörðun skólayfirvalda á Akureyri vegna skrifa sinna um samkynhneigð á bloggsíðu sína.

Eygló segist hafa hikað við að tjá sig um málið vegna þess hversu eldfimt það væri. „Ég hef verið hrædd við að skoðanir mínir séu hugsanlega ekki í samræmi við pólitískan rétttrúnað. Ég er nefnilega ósammála bæði Snorra og bæjaryfirvöldum á Akureyri. Ég tel samkynhneigð ekki vera synd, ekki frekar en að vera með stór eyru eða stuðningsmaður L-listans. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort trú kennara og skoðanir þeirra eigi að vera tilefni til brottrekstrar.“

Hún vísar í ákvæði stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi og um jafnan rétt fólks í vangaveltum sínum um það hvar mörkin liggi og rifjar ennfremur upp að ýmsir aðrir hafi látið ummæli falla af svipuðum toga og spyr hvort þeir eigi þá ekki að missa störf sín líka. Þá veltir hún fyrir sér hvar það endaði og hvort að lokum yrði það ef til vill ástæða til að segja einhverjum upp störfum vegna pólitískra skoðana hans.

„Ég vil nefnilega standa vörð um mannréttindi, ekki bara sumra heldur líka þeirra sem ég er ósammála. Rétt fólks að hafa skoðanir, rétt fólks til tjáningar og rétt fólks til að trúa. Meira að segja tómri vitleysu,“ segir Eygló.

Heimasíða Eyglóar Harðardóttur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert