Mega hlúa betur að höfundum barnabóka

Kristín Steinsdóttir.
Kristín Steinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst það mjög forvitnilegt að þetta skyldi koma fram að það hefði verið gengið fram hjá honum í svona mörg ár. Auðvitað finnst mér þetta mjög raunalegt,“ segir Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, um það að rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson hafi ekki fengið árleg starfslaun úr Launasjóði rithöfunda í 22 ár.

Í viðtali í Morgunblaðinu í gær greindi rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson frá því að honum hefði verið neitað um starfslaun úr launasjóði rithöfunda í 22 ár. Hann hafi engu að síður hlotið átta bókmenntaverðlaun á ferlinum.

„Það að komast aldrei í hóp þeirra 70 rithöfunda sem njóta starfslauna á hverju ári, er að mínu mati fyrst og fremst óvirðing við minn lesendahóp. Það er verið að segja við krakkana að ég sé þeim ekki þóknanlegur,“ sagði Þorgrímur í viðtalinu.

Hann fékk þó úthlutuð sex mánaða starfslaun úr launasjóðnum árið 1998.

Fleiri sækja um en fá

Kristín segir að stundum hafi verið talað um að barnabókahöfundar eigi erfiðara með að fá úthlutuð starfslaun en höfundar bóka fyrir fullorðna. Hún segist þó ekki vilja fullyrða um slíkt.

„Manni finnst það samt dálítið sérkennilegt í dag þegar talað er um minnkandi læsi barna. Það væri kannski svolítið heilsteyptara að hlúa betur að þeim sem skrifa fyrir þau,“ segir Kristín.

Hún tekur þó fram að það sé áreiðanlega ekki auðvelt verk fyrir úthlutunarnefndina að ákveða hverjir fái laun og hverjir ekki. Mun fleiri sæki um starfslaun en fái og það séu hvergi nærri nógu miklir peningar til þess að allir geti fengið úthlutað. Menn skili inn umsóknum um starfslaun og á grundvelli þeirra séu launin veitt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert