Lánin bera neikvæða raunvexti

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjóri mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar …
Forstjóri Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjóri mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem hófst kl. 17. mbl.is/Golli

Dómur Hæstaréttar í dag í máli sem hjón höfðuðu gegn Frjálsa fjárfestingabankanum kemur til með að hafa víðtæk áhrif. Flest bendir til að bankarnir komi til með að tapa tugum milljarða króna á dómum. Niðurstaðan þýðir jafnframt að mikill munur verður á stöðu þeirra sem tóku gengistryggt lán og þeirra sem tóku innlent verðtryggt lán.

Erlendu gengislánin voru dæmd ólögmæt af Hæstarétti árið 2010. Þar með var ekki allri réttaróvissu um þessi lán eytt. Ein af þeim spurningum sem deilt hefur verið um er hvaða vexti á að miða við fyrst sú viðmiðun sem upphaflega var byggt á stóðst ekki. Átti að miða við erlenda vexti eða innlenda vextir og átti lánið að vera verðtryggt eða óverðtryggt?

Niðurstaðan varð sú að miða við óverðtryggða vexti Seðlabankans eins og þeir voru á hverjum tíma. Til að styrkja þessa niðurstöðu setti Alþingi lög árið 2010 þar sem segir að miða skuli við þessa vexti við uppgjör á lánunum.

Meirihluti Hæstiréttar telur að þessi lög standist ekki og vísar m.a. til 72. greinar stjórnarskrárinnar um eignaréttindi. Ekki sé með almennum lögum unnt, „með svo íþyngjandi hætti sem á reynir í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt,“ eins og segir í dómnum.

Ef öll gengistryggð lán verða afgreidd með sama hætti og þetta lán ber bönkunum að miða við óverðtryggða erlenda vexti, sem voru á bilinu 2-5%, en ekki óverðtryggða vexti Seðlabankans sem hæstir fóru upp í 20%. Munurinn á vaxtaprósentunni er mikill.

Mikill munur á gengistryggðum og óverðtryggðum lánum

Þessi niðurstaða þýðir að gengistryggðu lánin, sem eftir gengisfall krónunnar á árinu 2008 voru að sliga þá sem lánin tóku, koma til með að bera neikvæða raunvexti því verðbólga hefur verið mikil hér á landi síðustu ár. Hún var t.d. yfir 12% á árunum 2008-2009. Staða lántakenda batnar mikið en staða bankanna versnar.

Í umræðum um þessi mál eftir gengislánadóm hæstaréttar 2010 kom fram það sjónarmið að eðlilegt væri að miða við óverðtryggða vexti Seðlabankans en ekki Libor-vexti vegna þess að annars yrði munur á stöðu þeirra sem tóku gengistryggð lán og þeirra sem tóku innlend verðtryggð lán svo mikill. Hætt er við að þessi niðurstaða ýti enn undir umræðu um stöðu þeirra sem tóku verðtryggð lán. Mikill meirihluti allra lána heimilanna eru verðtryggð lán.

Dómur Hæstaréttar í dag fjallar um gengistryggt lán sem tekið var til húsnæðiskaupa. Algengast var hins vegar að þessi lán væru notuð til bílakaupa. Dómurinn kemur því væntanlega bæði til með að hafa áhrif á bankana og bílalánafyrirtækin. Um er að ræða tug þúsunda lána sem þarf að endurreikna. Búið var að endurreikna lánin, en nú þurfa bankarnir sem sé að reikna aftur miðað við breytta forsendu.

Þegar bankarnir voru endurreistir eftir hrun tóku þeir yfir lán til einstaklinga og fyrirtækja. Þessi yfirfærsla byggði á þeirri forsendu að gengistryggðu lánin væru lögleg.  Sú spurning kann því að vakna hvort bankarnir geta gert einhverja nýja kröfur á þrotabú gömlu bankanna. Hætt er við að það geti orðið erfitt því kröfulýsingarfrestur er löngu liðinn.

37 þúsund heimili með gengistryggð lán

Samkvæmt fréttatilkynningu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins frá árinu 2010 er áætlað heildarvirði gengistryggðra lána 841 milljarður króna, en lán til einstaklinga um 186 milljarðar króna. Stór hluti fyrirtækjalána eru til aðila með tekjur í erlendri mynt. Um 37 þúsund heimili voru með gengistryggð lán.

Talsmenn bankanna voru ekki tilbúnir til að tjá sig efnislega um dóminn þegar eftir því var leitað í dag. Þeir sögðust vera að fara yfir dóminn og meta áhrif hans.

Samkvæmt upplýsingum mbl.is voru forstjóri Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjóri beðnir að mæta á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem hófst kl. 17.

Hæstiréttur dæmdi í dag að gengistryggð lán ættu að bera …
Hæstiréttur dæmdi í dag að gengistryggð lán ættu að bera erlenda óverðtryggða vexti, sem eru 2-5%. mbl.is / Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert