Spurningar um aðra samninga

Helgi Hjörvar alþingismaður.
Helgi Hjörvar alþingismaður. Brynjar Gauti

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fjallaði í dag um dóm Hæstarréttar í máli um gengistryggð lán og vexti af þeim en Hæstiréttur segir að ekki sé hægt að krefjast hærri vaxtagreiðslna aftur í tímann en samið var um. „Dómurinn snýr náttúrlega bara að afmörkuðu máli og leysir úr því álitaefni sem var í því og sambærilegum málum,“ segir Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar. „En um leið vakna þá spurningar um stöðu annarra samninga.“

 Umræddur dómur byggist á fullnaðarkvittun fyrir greiðslum af lánum, þ.e. að fólk eigi að geta treyst því að fá ekki bakreikninga eftir að hafa fengið lokakvittun. En Helgi segir menn velta fyrir sér stöðu þeirra sem ekki greiddu af lánunum, dómurinn næði ekki til þeirra og einnig gæti þurft nýja dóma til að láta reyna á stöðu þeirra sem væru með fjármál sín í svonefndri frystingu, hver réttarstaða þeirra væri.

 Erlendu gengislánin voru dæmd ógild 2010. Helgi er spurður hvort ríkisstjórnin hafi gert mistök þegar sett voru afturvirk lög sama ár um að lægstu óverðtryggðir vextir seðlabankans skyldu eiga við um erlendu gengislánin en Hæstiréttur gagnrýnir þau lög. Helgi segist sjálfur hafa setið hjá við afgreiðslu laganna en bendir á að mikil lagaleg óvissa hafi ríkt um það hvernig taka skyldi á þessu flókna máli. Og sú óvissa birtist á ný í því að Hæstiréttur klofnaði í málinu í dag, segir hann, fjórir dæmdu kæranda í vil en þrír bankanum.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert