Vill að þingnefnd ræði vaxtadóm

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Heiðar

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, fór fram á það á Alþingi í dag að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis verði kölluð saman án tafar til að fjalla um dóm, sem Hæstiréttur kvað upp í dag um vexti af gengistryggðum lánum. 

Fleiri þingmenn tóku undir þessa kröfu. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að í dómnum kæmi fram mjög alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og Árna Páls Árnasonar, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Tekið væri undir þær veigamiklu athugasemdir, sem stjórnarandstaðan hefði gert þegar lög voru sett um endurreikning gengistryggðra lána.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, og formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagðist hafa boðað fund í nefndinni klukkan 17 þar sem fjallað yrði um málið. Hafa fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og Seðlabanka verið boðaðir á fundinn.

Helgi sagði ljóst, að dómurinn væri ívilnandi fyrir skuldugt fólk, sem hefði greitt af erlendum lánum á undanförnum árum og það væri ánægjulegt.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að niðurstaða Hæstaréttar væri góð tíðindi fyrir þá sem hefðu tekið umrædd lán en jafnframt þýði hún væntanlega að reikna þurfi öll erlendu lánin aftur.  Þetta væri hins vegar afskaplega dýrt klúður hjá ríkisstjórninni og menn hlytu að spyrja sig hve margir hefðu misst eigur sínar vegna hinnar klúðurslegu lagasetningar ríkisstjórnarinnar.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þessi niðurstaða væri ívilnandi fyrir fólkið í landinu en gæti kallað á skaðabótakröfur af hálfu fjármálafyrirtækja á hendur ríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert