Kennir Íslendingum og Færeyingum um niðurstöðuna

Maria Damanaki, yfirmaður sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Maria Damanaki, yfirmaður sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Reuters

„Það veldur sérstaklega miklum vonbrigðum að hvorki Íslendingar né Færeyingar tóku virkilega þátt í samningaviðræðunum,“ sagði Maria Damanaki, yfirmaður sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í dag þegar fyrir lá að viðræður á milli sambandsins, Noregs, Íslands og Færeyja um skiptingu makrílkvótans á þessu ári sem lauk í Reykjavík í dag hefðu ekki skilað árangri.

Damanaki sagði ennfremur samkvæmt Reuters-fréttaveitunni að Evrópusambandið og Noregur færu fram á það að Íslendingar og Færeyingar drægju úr ósjálfbærum makrílveiðum sínum. „Við munum áfram vera reiðubúin til þess að reyna að ná raunhæfum og sanngjörnum samningi um skiptingu kvótans.“

Sjávarútvegsráðherra Skotlands, Richard Lochhead, sagði niðurstöðu viðræðnanna í dag vonbrigði samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. „Það veldur miklum vonbrigðum og gremju að við skulum standa frammi fyrir öðru ári án samnings um makrílinn.“ Hann sagði að það yrði að leysa úr deilunni með einhverjum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert