Lögin tóku engan rétt af fólki

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Ómar

Erfitt er að meta hversu víðtækt fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í gær um gengislán hafi að sögn Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra. Meðal annars við hvaða tímamörk eigi að miða. Þetta kom fram í máli hans á Alþingi í morgun. Hann sagði ekkert koma fram um það í dómnum.

Steingrímur lagði áherslu á að án laganna sem sett voru árið 2010 í kjölfar dóms Hæstaréttar um að gengislán væru andstæð lögum að án laganna hefðu tugir þúsunda skuldara þurft að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Lögin hefðu því falið í sér verulegar réttarbætur fyrir fólk og einfaldað málið fyrir þá.

Hann sagði að lögunum hafi ekki verið ætlað að taka betri rétt af skuldurum. Skýrt komi fram í þeim að ef fólk ætti ríkari rétt á grundvelli stjórnarskrár gengi hann framar lögunum.

Þá sagðist hann ekki geta séð að dómurinn hafi leitt til skaðabótaskyldu ríkisins vegna málsins. Það væri heldur ekki að sjá að réttindi hafi verið höfð af fólki eða að þau hafi valdið því tjóni.

Steingrímur sagði fjármálakerfið mjög vel fjármagnað og að það myndi þola þetta áfall. Mikið svigrúm væri til staðar í þeim efnum. Áhrifin á einstaka banka lægju hins vegar ekki fyrir og mikilvægt að það yrði greint á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert