Forsetinn: Ísland land tækifæranna

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. Reuters

Ísland er í kjörstöðu umfram nánast allar aðrar þjóðir til að sækja fram í viðskiptum og hinum ýmsu iðngreinum sem byggjast á hreinni orku og vatnsauðlind Íslendinga. Þetta kom fram í máli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á hádegisfundi viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Tilefnið er tíu ára afmæli MBA-náms við skólann og var yfirskrift fundarins „Viðskiptamöguleikar Íslendinga á næstu árum?“ að því er fram kemur á forsetavefnum. 

Forsetinn fór yfir stöðu Íslands í hnattrænu samhengi og hvernig sjávarauðlindin, hreina orkan og hreina vatnið skapi landinu geysileg tækifæri á næstu árum og áratugum. Við vatnsföllin og jarðhitann bætist vindorkan, ónýttur orkukostur sem bíði þess að verða beislaður þjóðinni til hagsbóta. Síðar á öldinni kynni vatn að verða flutt út á tankskipum til ríkja sem búa við vatnsskort.

Viðskiptin hefðu átt að læra af félagsvísindunum

Orðrétt sagði í ræðu forsetans sem er hér endurrituð út frá hljóðupptöku á forsetavefnum sem hlýða má á hér.

„Það snertir ávallt streng í mínu brjóti að hlýða á lýsingar á brautryðjendastörfum hér við háskólann og frumbýlisbúskap í fræðastarfi. Því að fyrir fjörutíu árum, eins og þið kannski vitið best, vorum við Þorbjörn Broddason valdir til þess tveim vikum áður en kennsla átti að hefjast að ýta félagsvísindunum hér úr vör. Það var skemmtileg reynsla. Þegar ég horfi til baka var það náttúrlega glæfraspil því það var til ein bók á bókasafninu sem hefði mátt flokka undir stjórnmálafræði. 

Þegar ég spurði háskólabókavörð hvenær væri að vænta fjármuna til þess að kaupa fleiri bækur hló hann nú að þessum nýgræðingi og sagði mér að koma eftir fimm ár. Allt tókst þetta samt,“ sagði forsetinn og lýsti því næst yfir þeirri skoðun sinni að æskilegt hefði verið að félagsvísinda- og viðskiptadeildin hefðu verið sameinaðar strax og þannig fengið að agast af samræðum í nábýli „við þá sem hafa kannski aðra sýn á samfélagið heldur en hið þrönga viðhorf markaðarins, stjórnkerfisins eða hins félagslega heims“.

Kunna háskólamenn að staldra við þessi ummæli en þau má túlka sem svo að forsetinn telji að skort hafi á félagslega nálgun við kennslu í viðskiptafræðum og öfugt. Rímar það við málflutning þeirra sem telja að svokölluð nýfrjálshyggja hafi sniðið nemendum of þröngan stakk í greiningu sinni á veruleikanum.

Land mikilla tækifæra

Vék forsetinn því næst að viðskiptamöguleikum Íslendinga á næstu árum.

„Um það má tala lengi vegna þess að ég er í hópi þeirra sem eru afar bjartsýnir á þá möguleika og tel Íslendinga vera í kjörstöðu umfram nánast allar aðrar þjóðir hvað það snertir. Ég veit að það eru stór orð og sumir telja að það sé embættisskylda forsetans að vera bjartsýnn en ég ætla að reyna að hlaupa hér á nokkrum röksemdum til þess að styðja þessa niðurstöðu í upphafi þeirrar samræðu sem ég vona að við eigum svo hér á eftir.“

Mikilvægasta sjávarauðlind Evrópu

Hóf forsetinn þá rökstuðning sinn:

„Í fyrsta lagi auðlindirnar. Rúmlega þrjú hundruð þúsund manna þjóð býr að því að hafa hér í nágrenninu, í hafinu, mikilvægustu sjávarauðlindir sem nokkur Evrópuþjóð á völ á. Okkur hefur tekist, þótt deilt sé um það kerfi, að varðveita þessar auðlindir en byggja öflugan sjávarútveg á þeim.

Aðgangur að slíkum auðlindum verður æ mikilvægari í veröld þar sem æ fleiri fiskistofnar ýmist eru víkjandi eða búa að aukinni mengun, á sama tíma og lífsstíll fólks um víða veröld er á þann veg að æ meiri eftirspurn er eftir sjávarafurðum og hin sífjölgandi millistétt í Asíu kappkostar umfram aðra að eiga aðgang að slíkum vörum.

Í öðru lagi orkan, hin hreina orka sem við eigum hér í miklu magni og erum þó ekki byrjuð að virkja vindinn, auðlind sem við eigum algjörlega eftir í okkar forðabúri til viðbótar vatnsaflinu og jarðhitanum og tími til kominn að við förum að læra af Dönum, sem hefur tekist á síðustu tuttugu, þrjátíu árum að verða stórveldi í orkumálum og er kannski ágætt dæmi um það að hægt er að skapa sér viðskiptatækifæri úr engu. Því að Danir höfðu hvorki vatnsafl né jarðhita en þeir höfðu hins vegar rokið og tókst með vísindum, hugkvæmni og viðskiptaviti að gera Danmörku að forysturíki á því sviði.“

Margvíslegir kostir vindorkunnar

Forsetinn nefndi því næst dæmi um kosti vindorkunnar við rekstur gagnavera. 

„Menn gleyma því stundum þegar talað er um Ísland og Noreg sem forysturíki í orkumálum að Danmörk á svo sannarlega heima í þeim hópi. Og eins og við sjáum á eftirspurn Alcoa, Rio Tinto og Century Aluminium eftir því að fá að byggja enn fleiri álver á Íslandi er enginn skortur á því að menn vilji  sækja í þessa auðlind. Okkar stóri vandi verður að ná saman um það hvernig við viljum skapa okkur sem mestan arð úr henni og bæta svo vindinum við.

Ég nefndi hér fyrir fimm, sex árum eftir fund með Bill Gates í Edinborg að gagnaver gætu verið vænlegur vettvangur fyrir Íslendinga. Mönnum fannst það þá nokkuð skrítin tíðindi, en það er ánægjulegt að nú þegar höfum við hafið það verk og enn á ný er vindurinn auðlind vegna þess að þau (gagnaverin)  eru kannski umframt allt samkeppnishæf, ekki aðeins vegna hreinu orkunnar heldur vegna þess að kælingin sem rokið til dæmis á Suðurnesjum felur í sér gerir það að verkum að rekstrarkostnaðurinn er um 40% minni heldur en í gagnaverum annars staðar.“

Vatnsflutningaskip framtíðin?

Forsetinn nefndi svo mikil sóknarfæri við útflutning ferskvatns frá Íslandi á næstu áratugum.

„Í þriðja lagi vatnið. Ísland býr að einhverju stærsta forðabúri af fersku vatni sem til er í veröldinni, á sama tíma og allir sérfræðingar eru sammála um það að vatnsskorturinn verður kannski helsti þröskuldurinn fyrir hagþróun í Asíu og öðrum heimshlutum á komandi árum. Og leiðtogar í Mið-Austurlöndum, eins og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, hafa nýlega tilkynnt það að skorturinn á vatni sé mikilvægasta viðfangsefni þeirra á komandi áratugum - verðlagið þegar orðið hærra heldur en olían og spurningin einfaldlega hvernig við gerum okkur mat úr þessari auðlind, hvort sem við höldum áfram að flytja hana eingöngu út á flöskum eða setjum hana á tankskip og flytjum hana í stórum stíl til annarra landa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert