Sjálf lafhrædd við sviðsljósið

Greta Salóme Stefánsdóttir og Jón Jósep Snæbjörnsson syngja lagið Mundu …
Greta Salóme Stefánsdóttir og Jón Jósep Snæbjörnsson syngja lagið Mundu eftir mér. Morgunblaðið/Eggert

Eins og kunnugt er stóð Greta Salóme Stefánsdóttir uppi sem sigurvegari í Söngvakeppni Sjónvarpsins og verður lag hennar, Mundu eftir mér, framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva síðar á árinu. Færri vita þó eflaust að móðir Gretu Salóme, Kristín Lilliendahl, söng bæði og samdi vel þekkt lög.

Kristín er aðjúnkt við þroskaþjálfabraut Háskóla Íslands og er í rannsóknarleyfi þetta misserið þar sem hún vinnur að rannsóknarskýrslu og greinaskrifum tengdum starfssviðinu. Hún ákvað að láta gamlan draum rætast og flutti í lítið fjallaþorp á Spáni til að vinna að verkefnum sínum og kynna sér í leiðinni hvernig staðið er að námi og starfsvettvangi þroskaþjálfa á Spáni.

-En er Kristín alveg hætt að syngja og semja?

„Ég held ég hafi nú reyndar aldrei byrjað almennilega á því og er ekki dugleg að flíka því fáa sem ég hef gert í tónlist. Mín ástríða er miklu frekar að skrifa þó það fari ekki víða. Ég nýt þess mjög að gera það.“

Á myndbandavefnum Youtube má einmitt finna lag Gretu Salóme sem hún samdi við texta móður sinnar. En á sama vef má einnig finna lagið Breytir borg um svip, en það samdi Kristín og söng inn á plötu árið 1986. Lagið sendi hún inn í keppni sem Reykjavíkurborg efndi til í tilefni af 200 ára afmæli borgarinnar, og hafnaði það í öðru sæti. Það er jafnframt síðasta lag sem Kristín söng inn á plötu. En langaði hana aldrei að taka þátt í Evróvisjón?

„Nei, það hefði mér aldrei dottið í hug. Enda lafhrædd við sviðsljósið. Ég sé hins vegar alltaf eftir að hafa ekki lært til fullnustu á hljóðfæri. Held að það sé svo dýrmætt skjól í þessari vindasömu tilveru að geta sest við hljóðfærið sitt.“

Tónlist einkennandi fyrir heimilislífið

Tónlist hefur skipað stóran sess á heimili Kristínar og eiginmanns hennar, Stefáns Jóhanns Pálssonar, og fóru Greta Salóme og systir hennar, Sunna Rán, báðar ungar í Tónlistarskóla íslenska Suzuki-sambandsins. En er hægt að segja að skipulega hafi verið stuðlað að tónlistarlegu uppeldi á heimilinu?

„Við höfum alltaf hlustað mikið á tónlist, bæði klassíska og aðra tónlist og Greta hefur þannig ekki komist hjá því að taka eftir og hlusta allt frá því hún var pínulítil. Þar að auki var alltaf mikið sungið með þeim báðum frá því þær muna eftir sér. Þær voru þó ekki sendar í tónlistarnám með það í huga að þær yrðu tónlistarmenn. Ég hafði lesið mér til um kennsluaðferðina og hugmyndafræðina sem liggur henni að baki hjá Suzuki, en hún er í hnotskurn sú að börn eigi fyrst og fremst að læra tónlist til þess að taka þátt í að gera veröldina fegurri og betri en ekki til þess að verða snillingar í tónlist. Suzuki-hugmyndafræðin er þannig ekki síður uppeldisfræðileg en tónlistarmiðuð. Þetta féll mjög vel að okkar hugmyndum og gildum.

Samkvæmt aðferðinni eru foreldrar með í náminu frá upphafi. Kennarinn kennir foreldrunum að æfa börnin heima og þeir bera ábyrgð á hvernig námið er stundað. Samvinna kennarans ,foreldra og barnanna er í öndvegi sem var eitt af því sem heillaði mig. Ég sat því í öllum fiðlutímum í nokkur ár hjá þeim báðum, lærði tökin og skrifaði niður heimaverkefnin. Það sem heillaði mig þó ekki minnst var hve ötulir kennarar voru að fara með börnin og láta þau æfa sig í að spila fyrir áheyrendur. Og þeir voru af ýmsu tagi. Ég man til dæmis eftir ferð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn þar sem litlu stýrin héldu fiðlutónleika fyrir beljurnar. Og alltaf fylgdu foreldrar með, hvert sem farið var. Ég verð kennurunum ávallt þakklát fyrir hvernig þeir studdu við stelpurnar okkar á þessum tíma og þá varanlegu vináttu sem úr varð milli foreldra og kennara.

Það er því ekki orðum aukið hjá Gretu að tónlist hafi alltaf verið miðlæg í lífi hennar. Það hefur verið einkennandi fyrir heimilislíf okkar að verið sé að spila á fiðlu einhvers staðar í húsinu og ég sakna þess núna þegar það fer meira fram annars staðar.“

- En hvattir þú Gretu sérstaklega til að semja texta og lög sjálf?

„Nei nei nei. Ekkert sérstaklega. Hún hefur alveg fundið upp á því sjálf. Hún ber hins vegar oft undir mig það sem hún er að fást við sem er voða skemmtilegt. Það er mjög gaman að fylgjast með því sem verður til í höndunum á henni og fá að taka þátt í því.“

Misjafnlega dugleg að æfa sig

Hugmyndin að tónlistarnáminu var Kristínar en hún segir að ákvörðunin hafi verið beggja, enda þurfi báðir foreldrar að taka virkan þátt í náminu, hvort með sínum hætti. Kristín segir að þetta útheimti útheimtir tíma, úthald og staðfestu en ekki síst áhuga. Til marks um áhuga Stefáns nefnir hún að hann hafi tekið sig til og lært að smíða fiðlur þegar dæturnar voru litlar.

„Stefán er listasmiður og hann lá yfir heimildum á kvöldin í heilan vetur áður en hann tók til við smíðina undir leiðsögn lærðs fiðlusmiðs. Við eigum tvær afar fallegar fiðlur heima sem hann smíðaði sína handa hvorri stelpunni.“

-En þurfti að halda náminu að Gretu?

„Það kom fyrir. Það var ekkert framan af sem benti sérstaklega til þess að hún myndi leggja þetta fyrir sig. Hún var misjafnlega dugleg að æfa sig stundum og svo tók hún góða spretti inni á milli. Þegar hún var svo ellefu ára fékk hún verk til að æfa sem heillaði hana. Og það þurfti aldrei að halda því að henni eftir það. Lilja Hjaltadóttir sem þá var kennari hennar sagði við okkur: „Nú þurfum við að virkja þennan áhuga.“ Og hún lét ekki sitja við orðin tóm. Nokkrum misserum síðar lóðsaði Lilja hana yfir til Guðnýjar Guðmundsdóttur sem fylgdi henni til loka grunnnámsins í Listaháskóla Íslands.“

Fylgdist með undirbúningnum á Skype

-Nú ert þú stödd í litlu þorpi á Spáni. Fylgdist þú með keppninni á laugardaginn?

„Já, að sjálfsögðu gerði ég það! Mér fannst afar vel að þessu staðið og meira í lagt en áður. Ríkissjónvarpið á heiður skilinn. Þessi keppni er í mínum huga miklu meira en undankeppni fyrir Evróvisjón. Hún er fyrst og fremst mikilvægur viðburður í íslensku tónlistarlífi. Og eins og önnur skipti sem ég hef horft á Evróvisjón hugsaði ég til þeirra laga sem ekki voru valin til að keppa til úrslita. Ég held að við förum á mis við mörg frábær lög um leið og við veljum svona lítið úrtak. Það væri gaman ef hægt væri að gefa fleirum tækifæri til að koma tónlist sinni á framfæri í svona glæsilegri umgjörð. Það eru svo margir að gera frábæra hluti í tónlist.“

-Fannst þér ekki verra að vera svo langt í burtu?

„Í raun og veru ekki. Það er líka gott og gaman að horfa á úr dálítilli fjarlægð. Og mér fannst ég í raun vera heima því ég var í samandi á Skype-inu og fylgdist með undirbúningi fram á síðustu stundu. Það hefði þó verið gott að geta faðmað stelpurnar mínar báðar að sigri loknum. Ég sakna þess.“

-Hvernig leið þér svo meðan á keppninni stóð?

„Mér leið bara mjög vel og fann ekki fyrir neinni spennu. Ég vissi að Greta hafði það viðhorf sjálf að það sem skipti mestu væri að fá tækifæri til að koma tónlist sinni á framfæri og taka þátt. Sigur væri bónus sem hver og einn þátttakandi væri vel að kominn. Ég vissi líka að hún var vel undirbúin. Hún tekur alvarlega það sem hún gerir í tónlist og er vandvirk. Auk þess var hún með frábæra tónlistarmenn með sér og ég veit að samvinna þeirra gekk mjög vel. Það var að minnsta kosti mikið hlegið. Þar á ég bæði við söngvarana sjálfa og svo Þorvald Bjarna [Þorvaldsson] sem á sannarlega sinn stóra þátt í þessu frá upphafi. Ég hafði því aldrei áhyggjur af flutningnum.

En ég skal viðurkenna að það var spennandi augnablik og ég hélt niðri í mér andanum á meðan var verið að skera úr um hvor hópurinn bæri sigur úr býtum. Á því augnabliki varð mér kannski fyrst ljóst hversu stutt hún var frá því að sigra. Þegar ég sá svo pabba hennar, systur hennar og bróður minn faðma hana uppi á sviði, þá langaði mig heim og taka hana í fangið.“

Tekur þetta á æðruleysinu

Evróvisjónsöngkeppnin fer fram í Bakú, höfuðborg Aserbaídsjan, í maí næstkomandi. Ísland er í fyrri undanriðlinum og Greta Salóme og Jónsi stíga því á svið 22. maí og vonandi aftur 26. maí í aðalkeppninni. En Hvernig tilfinning er það, að hugsa til þess að Greta Salóme syngi fyrir milljónir manna?

„Óraunveruleg. En ef ég þekki hana rétt tekur hún þetta á æðruleysinu og gerir þetta bara eins vel og hún getur. Hún er agaður tónlistarmaður og einbeitt í verkefnum og hefur fyrst og fremst metnað til að skila þessu vel. Annað er ekki í hennar höndum. Það er því full ástæða til að hlakka bara til og vænta þess besta.“

-Gerir þú ráð fyrir að vera viðstödd?

„Það er óvíst. Pabbi hennar og systir munu þó örugglega fara. Og kærasti Gretu hann Elvar Þór Karlsson mun væntanlega ekki láta sig vanta ef ég þekki hann rétt.“

-Kristín nefnir að systir Gretu, Sunna Rán, hafi komið töluvert að undirbúningnum. En hvernig þá?

„Sunna Rán systir hennar er ári yngri og þær eru afar nánar. Sunna er einnig tónlistarlærð, en lagði fiðluna á hilluna eftir fjórtán ára nám. Hún hefur yndislega söngrödd og er liðtæk á hljómborð og semur undurfallega tónlist. Hún hefur hins vegar kosið að halda því meira fyrir sjálfa sig þrátt fyrir að eiga fullt erindi inn á þennan vettvang. Sunna hefur verið stoð og stytta systur sinnar í undirbúningi keppninnar ásamt fleirum og það hefur verið frábært að sjá þær snúa bökum saman í þessu verkefni. Ég er mjög stolt af þeim báðum.“

Hógvær og laus við yfirlæti

Að endingu bað ég Kristínu að lýsa Gretu Salóme í fáeinum orðum. Þeirri beiðni var vel tekið.

„Þegar Greta fæddist var hún með annað augað opið sem er alveg dæmigert fyrir hvernig hún hefur alla tíð verið; vökul og athugul gagnvart umhverfi sínu. Hún var bráðger, hefur alltaf haft alveg einstaklega ljúfa lund en er föst fyrir þegar því er að skipta. Hún stóð varla út úr hnefa þegar hún bað okkur foreldra sína vinsamlega um að hætta að segja sér að hún yrði stór ef hún borðaði kartöflur. Sú stutta benti máli sínu til stuðnings á mig og sagði: „Þú borðar kartöflur. Þú ekki stór.“ Hún hefur með öðrum orðum alltaf verið rökföst og ekki þýtt að segja henni neitt sem henni finnst ekki trúverðugt.

Greta hefur alltaf verið góður og vinnusamur námsmaður sem sést kannski best á því að hún stundaði samtímis námið í MR og í Listaháskóla Íslands síðustu tvö menntaskólaárin sín. Hún hefur sterkar lífsskoðanir, er sjálfri sér samkvæm, blíðlynd og hreinskiptin auk þess að hafa skarpa kímnigáfu. Hún er mjög heimakær og hefur alltaf metið fjölskyldu sína mikils. Held að henni líði best á náttbuxunum og bol heima með tónlist í tölvunni og að elda eitthvað gott, sem henni finnst sérstaklega róandi. Þá teljum við foreldrarnir til hennar bestu kosta að þó að hún sé ákveðin er hún jafnan hógvær og laus við yfirlæti.“

Stefán Jóhann Pálsson og Kristín Lilliendahl.
Stefán Jóhann Pálsson og Kristín Lilliendahl. Ljósmynd/Úr einkasafni
Sunna Rán og Greta Salóme.
Sunna Rán og Greta Salóme. Ljósmynd/Úr einkasafni
Greta Salóme á úrslitakvöldinu.
Greta Salóme á úrslitakvöldinu. Morgunblaðið/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert