Óska eftir lengri fresti

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Skúli Bjarnason, lögfræðingur Gunnars Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, hefur fyrir hönd Gunnars óskað eftir lengri fresti til þess að skila inn andmælum vegna fyrirhugaðrar uppsagnar Gunnars. Stjórn FME hefur ekki svarað beiðninni, að sögn Skúla.

Gunnar hefur verið í vinnunni í Fjármálaeftirlitinu í dag enda hefur honum ekki verið sagt upp, að sögn Skúla.

Samkvæmt upplýsingum frá Skúla er sú málsmeðferð stjórnar FME að fjalla opinberlega um mál Gunnars, þrátt fyrir að á sama tíma sé því lýst yfir að málið sé enn á rannsóknarstigi, hörmuð.

Segir í bréfinu að Gunnar telji frestinn of stuttan og andstæðan meginreglum stjórnsýslulaga en Gunnari var tilkynnt um fyrirhugaða uppsögn á föstudag. Það þýðir að Gunnar fékk einungis einn virkan dag til þess að skila inn greinargerðinni. Segir jafnframt í bréfinu að eins beri að líta til þess að eftir að stjórn FME afréð einhliða að birta álitsgerð Ástráðs Haraldssonar lögmanns um mat á hæfi Gunnars á heimasíðu FME hafi Gunnar mátt þola stanslausan ágang fjölmiðla og hafi ekki notið vinnufriðar. „Því verður ekki trúað fyrr en tekið verður á því að stjórnin hafni eðlilegum fresti og geri sig þannig bera að valdníðslu gagnvart umbjóðanda mínum,“ skrifar Skúli í bréfi til stjórnar FME.

Eins vanti Gunnar enn gögn og upplýsingar um ákveðin grundvallatriði áður en hann geti tjáð sig heildstætt um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert