Fimm ára fangelsis krafist

Lögreglumenn ræða við starfsfólk úraverslunar Michelsen á ránsegi..
Lögreglumenn ræða við starfsfólk úraverslunar Michelsen á ránsegi.. Júlíus Sigurjónsson

Farið var fram á það við aðalmeðferð í dag að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmi Marcin Tomasz Lech, einn þeirra sem kom að ráninu í Michelsen úrsmiðum 17. október sl., í fimm ára fangelsi. Verjandi Lech sagði hins vegar að tveggja ára fangelsi væri hæfileg refsing fyrir brot hans.

Aðalmeðferðinni lauk á fjórða tímanum í dag og verður dómur kveðinn upp á næstu vikum. Meðferðin gekk tiltölulega greiðlega fyrir dómi enda hafði Lech játað sinn þátt í ráninu.

Ef hlaupið er á hundavaði yfir málflutning Margrétar Unnar Rögnvaldsdóttur aðstoðarsaksóknara hjá ríkissaksóknara, þá sagði hún flest liggja fyrir í málinu. Lech hefði játað hvernig hann kom að skipulagningu ránsins og að hann hefði komið hingað til lands gagngert til að flytja ránsfenginn úr landi.

Hún sagði ránið þaulskipulagt og að beinn ásetningur hefði legið til verksins sem framið hefði verið í ágóðaskyni. Hún vísaði til þess að upphaf ránsins hefði verið í Póllandi en þaðan hefðu mennirnir fjórir ekið til Kaupmannahafnar. Þar skiptu þeir liði; þrír fóru með flugi til Reykjavíkur en Lech tók Norrænu til Seyðisfjarðar þaðan sem hann ók til Reykjavíkur og hitti hina þrjá að nýju.

Margrét sagði að Lech hefði verið ákærður sem aðalmaður og hann játað samkvæmt ákæru. Þó svo hann hefði sjálfur ekki ruðst inn í verslun Michelsen hefði þáttur hans síst verið minni. Hann hugðist fara með með ránsfenginn úr landi en um hefði verið að ræða um fimmtíu úr, andvirði yfir fimmtíu milljóna króna.

Hún benti á að hagnaðurinn hefði verið gríðarlegur ef ekki hefði komist upp um málið áður en Lech hélt úr landi. Þá vísaði hún til afleiðinga ránsins fyrir starfsfólk Michelsen.

Verði að líta til þáttar Lech

Verjandi Lech, Brynjólfur Eyvindsson, fór fram á vægustu refsingu yfir skjólstæðingi sínum. Hann sagði að Lech hefði tekið verkið að sér vegna langvarandi atvinnuleysis og peningaskorts. Hann hefði ekki vitað nákvæmlega hvað stóð til, annað en að hann ætti að flytja úr landi og til Póllands illa fenginn varning.

Þegar hann kom til Reykjavíkur var honum sagt að til stæði að brjótast inn í úraverslun að nóttu til, sú áætlun hefði hins vegar breyst og það án aðkomu Lech. Hann hefði aldrei verið með í áætlanagerð eða skipulagningu.

Brynjólfur sagði skjólstæðing sinn ekki hafa viljað gefa upp nafn samverkamanna sinna hjá lögreglu vegna þess að hann óttaðist um ættingja sinna og öryggi þeirra. Allir væru mennirnir frá sama bæ í Póllandi og þeir þekktir afbrotamenn. Þeir hefðu hins vegar fengið Lech til verksins þar sem hann var ekki með sakarferil, og ekki í fíkniefnum eða ætti við drykkjuvanda að stríða.

Þá sagði Brynjólfur að við ákvörðun refsingar yrði að horfa til þáttar skjólstæðings síns, sem hefði ekki komið að skipulagningu. Þá hefðu öll úrin komist aftur til skila.

Vátryggingafélag Íslands gerir 14 milljón króna skaðabótakröfu í málinu en henni mótmælti Brynjólfur. Hann sagði að Frank Michelsen hefði sjálfur gert matið en tekin hefði verið stikkprufa á þremur úrum sem annar úrsmiður hefði skoðað. Fyrir svo hárri bótakröfu þyrfti að liggja hlutlaust mat, en ekki mat þess sem hefði hagsmuna að gæta í málinu.

Að endingu sagði Brynjólfur að ef litið væri til dómafordæma ætti tveggja ára fangelsi að þykja eðlilegur dómur.

Marcin Tomasz Lech fyrir dómi í dag.
Marcin Tomasz Lech fyrir dómi í dag. Morgunblaðið/Kristinn
Lögregla og sérsveit við Michelsen á Laugavegi þar sem framið …
Lögregla og sérsveit við Michelsen á Laugavegi þar sem framið var rán. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert