Geir Jón gefur kost á sér

Geir Jón Þórisson.
Geir Jón Þórisson. Morgunblaðið/Friðrik

Eftir vandlega umhugsun og mikla hvatningu hefur Geir Jón Þórisson lögreglumaður ákveðið að gefa kost á sér sem annar varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann segir það einlæga von sína og trú að hann sé rétti maðurinn til að vinna með fólkinu.

Í tilkynningu frá Geiri Jóni segir, að þann tíma sem hann starfaði sem yfirmaður í lögreglunni valdi hann að halda sér frá öllu stjórnmálastarfi. Nú þegar störfum á þeim vettvangi sé að ljúka, finni hann mikla þörf og löngun til að vinna að þeim stóru og brýnu verkefnum samfélagsins sem liggi á sviði stjórnmálanna.

„Ástæða þess að ég gef kost á mér í þetta stóra verkefni er einlægur áhugi minn og vilji til að láta gott af mér leiða. Reynsla mín af fyrri störfum og djúp þörf til að koma þjóðþrifamálum í framkvæmd hvetur mig einnig til að stíga þetta stóra skref. Hvatning víða úr samfélaginu er mér sömuleiðis kærkomin og fyrir henni ber mikla virðingu.

Með framboði mínu til annars varaformanns Sjálfstæðisflokksins vil ég undirstrika vilja minn og áhuga á því að efla og styrkja Sjálfstæðisflokkinn, flokk allra stétta, til að ná þeim styrk sem þarf til að leiða þjóðina út úr því erfiða ástandi sem hún býr við í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert