Vilja lækka olíugjald

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja í dag fram frumvarp til laga þar sem lagt er til að olíugjald verði lækkað umtalsvert.

Segir í frumvarpinu að á tímabilinu 1. apríl 2012 til 31. desember 2012 skal fjárhæð olíugjalds nema 19,88 kr. í stað 54,88 kr.

Eins leggja þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að vörugjald verði einnig lækkað: Á tímabilinu 1. apríl 2012 til 31. desember 2012 skal fjárhæð vörugjalds nema 4 kr. í stað 24,46 kr. og fjárhæð bensíngjalds af blýlausu bensíni vera 28,51kr. í stað 39,51 kr.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Tryggvi Þór Herbertsson, en allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins standa að frumvarpinu. 

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að órói í Miðausturlöndum og miklir kuldar í Evrópu í vetur hafi leitt til mikillar óvissu um þróun eldsneytisverðs í heiminum. Þessi óvissa kemur fram í hækkun olíuverðs á heimsmarkaði og þar með innflutningsverði hér á landi.

Samkvæmt útreikningum FÍB í febrúar 2009 nam eldsneytisreikningur heimilanna vegna fjölskyldubílsins um 289 þús. kr. Þar af voru skattar 153 þús. kr. Sambærilegir útreikningar fyrir febrúar 2012 eru 494 þús. kr. og þar af eru skattar 239 þús. kr. Ráðstöfunartekjur meðalheimilis, og þar með neysla, minnka því um 205 þús. kr. vegna hærra eldsneytisverðs. Auk þessa hækkar vöruverð vegna aukins flutningskostnaðar. Það er því brýnt að bregðast með einhverju móti við þessari þróun, að því er fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.

Hér er hægt að nálgast upplýsingar um eldsneytisverð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert