Vilja starfshóp um póstverslun

Íslandspóstur.
Íslandspóstur.

Ellefu þingmenn úr fjórum flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að fela forsætisráðherra að setja á fót starfshóp sem athugi þróun og regluverk í póstverslun hér og erlendis og geri tillögur um lagabreytingar og aðrar ráðstafanir til að skapa póstverslun viðeigandi samkeppnisstöðu til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki. Fyrsti flutningsmaður er Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.

Í greinargerð með tillögunni, sem þingmenn úr Samfylkingunni, Vinstri grænum, Hreyfingunni og Framsóknarflokki standa að, segir að þó dregið hafi úr póstverslun á síðari hluta 20. aldar af ýmsum ástæðum hafi á síðustu tveimur áratugum eða svo áhugi á póstverslun aukist að nýju. Er þá einkum átt við póstverslun við erlend fyrirtæki, ekki síst eftir tilkomu netsins.

Þá er vitnað í erindi lögfræðiprófessors við fylkisháskólann í Connecticut í Bandaríkjunum um póstverslun en hann kom hingað til lands í janúar. "Niðurstöður hans voru þær að póstverslun væri vanþróuð á Íslandi. Reglur sem hindra netviðskipti komi niður á hagsmunum neytenda en veiti íslenskum verslunarfyrirtækjum aðeins skammgóðan vermi, því neytendur finni aðrar leiðir, löglegar, svo sem verslunarflugferðirnar frægu, eða ólöglegar, svo sem skipulegar sendingar „gjafa“ frá útlöndum."

Af þessum sökum er lagt til að hafist verði handa við úrbætur á þessu sviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert