Bjartsýnn á framtíð íslensks landbúnaðar

Steingrímur J. Sigfússon, landbúnaðarráðherra, ávarpaði Búnaðarþing í dag.
Steingrímur J. Sigfússon, landbúnaðarráðherra, ávarpaði Búnaðarþing í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þjóðin hefur enn á ný lært þá lexíu hversu mikilvægir grunnatvinnuvegir okkar eru. Þar á ég ekki síst við sjávarútveg, landbúnað og ferðaþjónustu. Sterkir innviðir og vel uppbyggðar og vel mannaðar kjölfestustofnanir, ekki síst á sviði opinberrar þjónustu, hafa staðist þolraunina við erfiðar aðstæður,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ræðu sinni við setningu Búnaðarþings.

Steingrímur ræddi ýmis mál í ræðu sinni, sagði m.a. að bændur hefðu lagt sitt af mörkum áður á erfiðum tímum og í því samhengi nefndi hann þjóðarsáttina 1990. Hann sagði að enginn vissi hvað átt hefði fyrr en misst hefði og nefndi í því sambandi stöðuna í Grikklandi og að ráðamenn þar hefðu áttað sig á því að grískur landbúnaður væri laskaður og að þar væri unnið að því að endurreisa hann þannig að þjóðin gæti treyst á hann. Hann sagði þessa hluti ekki vera svo fjarri okkur.

„Landbúnaður er ekki þannig atvinnugrein að allt í einu sé hægt að rjúka til og auka framleiðsluna í einu vetfangi. Það er heldur ekki hægt að draga skyndilega úr framleiðslunni eða hætta henni á einum degi. Meðal annars af þeim sökum er mikilvægt að þjóðin eigi sér langtíma stefnu í málaflokknum og hana er nú tímabært að ræða og móta,“ sagði Steingrímur.

Kjöraðstæður til sjálfbærrar og framsækinnar þróunar

Hann sagði hér kjöraðstæður til sjálfbærrar og framsækinnar þróunar á sviði matvælaframleiðslu og matvælaiðnaðar. Hann sagði landið gróa upp í mun meira mæli en það eyddist. Hér væru miklar möguleikar til orkuskipta yfir í endurnýjanlegan eða vistvæna orkugjafa. Hér er gnægð ferskvatns, landrými og hreint loft. „Já, hér höfum við svo mikið af mörgu því sem aðrir hafa af skornum skammti og vaxandi eftirspurn verður eftir á komandi áratugum í hrjáðum heimi.“

Þá ræddi hann fjölþætt hlutverk íslensks landbúnaðar og að á seinni árum væri hann orðinn betur samkeppnisfær í verði. En einnig að hann væri forsenda búsetu í dreifbýli og að hann viðhéldi margskonar menningar-, félags- og umhverfislegum þáttum. Steingrímur sagði landbúnaðinn styðja ferðaþjónustu og hann væri uppspretta fjölþættrar nýsköpunar sem gagnast öðrum atvinnuvegum.

„Í raun má segja að ferðaþjónusta í dreifbýli byggist að stórum hluta á þeim grunni sem íslenskur landbúnaður skapar; fólki, landi, húsnæði, þekkingu á náttúru og menningu, handverki og vinnslu og sölu hvers kyns minjagripa sem ferðamenn kjósa að eignast,“ sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði mestu sóknarfærin tengjast ferðaþjónustunni, sem væri að vaxa hraðast allra atvinnugreina í landinu og yrði líkast til sú stærsta innan tíðar. „Með sama áframhaldi í ekkert svo mörg ár í viðbót tekur hún einfaldlega forustuna og verður í þeim skilningi númer eitt.“

Steingrímur talaði um aukningu í fiskeldi í dreifbýli landsins, en nú eru framleidd tæp 6 þúsund tonn af eldisfiski í eldisstöðvum víða um land.

Kornrækt bar einnig á góma í ræðu ráðherra, en Steingrímur sagði að þrefalda mætti kornrækt þannig að þjóðin gæti orðið sér næg um byggræktun.

Steingrímur sagði skógrækt einnig stórt mál í íslenskum landbúnaði og að gera mætti verulega búbót á komandi árum í formi nýtingar á skógarafurðum. Slík nýting afurða félli vel að því græna hagkerfi sem stefnt væri að.

Útflutningstekjur landbúnaðarins námu 12 milljörðum á árinu 2011

Steingrímur ræddi útflutning á landbúnaðarvörum í ræðu sinni. Hann sagði mikil tækifæri í útflutningi og vinnslu æðardúns, en á síðasta ári námu gjaldeyristekjur af honum 375 milljónum. Hann sagði það markmiðið að koma á fullvinnslu á Íslandi. Síðasta ár var fjórða besta ár í útfluttu magni og annað besta ár í krónum talið í útflutningi æðardúns.

Hann sagði sölu mjólkurvara almennt hafa gengið vel á síðasta ári, en þó hefði orðið samdráttur um 2,2%. Flutt voru út 550 tonn af undanrennu, 512 tonn af smjöri og 385 tonn af skyri. Allt á hækkandi verði.

Sala á kindakjöti innanlands nam um 6.000 tonnum, sem er samdráttur um 4,3%. Útflutningur gekk þó vel, en 2.800 tonn voru flutt út og meðalverð á kg nam 742 kr. sem hækkaði úr 616 kr. eða um 20%.

„Íslenskur landbúnaður - stór og smár að meðtöldu fiskeldi og ferðaþjónustu, skilar því íslenska þjóðarbúinu 12 milljörðum króna hið minnsta í beinhörðum gjaldeyri með tiltölulega litlum innfluttum aðföngum til frádráttar og munar nú um minna,“ sagði Steingrímur.

Lifandi hross voru flutt út fyrir um 777 milljónir, hreinsaður æðardúnn fyrir rúmlega 375 milljónir, innyfli úr dýrum fyrir um 83,5 milljónir, skinn og húðir fyrir 1,5 milljarða. Hrátt kjöt og kjötafurðir voru svo fluttar út fyrir ríflega 2,3 milljarða. Hefðbundnar landbúnaðarafurðir voru því fluttar út fyrir tæpa 6 milljarða. Að auki voru útflutningsverðmæti fiskeldis um 4 milljarðar og ferðaþjónusta bænda skilaði 2,2 milljörðum króna.

Bjartsýnn á framtíð íslensks landbúnaðar

„Ég er bjartsýnn sem aldrei fyrr á framtíð og möguleika íslensks landbúnaðar. Ég sé ekki betur en aðstæður okkar og umheimsins séu að færa okkur í hendur tækifæri og möguleika sem okkur er ekki bara kleift, heldur og skylt, að nýta. Svo er nú komið að meira en sjö þúsund milljónir manna byggja þessa jörð okkar og fer enn fjölgandi,“ sagði Steingrímur.

„Landbúnaðurinn á að þróast í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun þannig að vistvænir búskaparhættir, góður aðbúnaður búfjár og gæði verði ávallt í öndvegi. Kjör bænda þurfa og eiga í jafnaðarþjóðfélagi að standast eðlilegan samjöfnuð. Við eigum að framleiða innanlands eins og kostur er eldsneyti, fóður og önnur aðföng sem nauðsynleg eru við matvælaframleiðslu, efla fæðuöryggi þjóðarinnar sem lið í eðlilegri sjálfsbjargarviðleitni og almannaöryggi. Auðvelda kynslóðaskipti, rannsóknir, menntun og þróun í landbúnaði eins og öllum öðrum burðarásum framtíðarlandsins.“

„Ég trúi því að landbúnaðurinn verði hluti kjölfestunnar, hluti þess öryggis sem við viljum búa við, hluti þjóðarsálarinnar, hluti af rótunum sem halda okkur sem þjóð betur við jörðina í framtíðinni en okkur auðnaðist að gera um tíma á undangengnum árum,“ sagði Steingrímur að lokum.

Íslenskur landbúnaður.
Íslenskur landbúnaður. Mbl.is/Heiðar Kristjánsson
Mjólkurvörur frá MS.
Mjólkurvörur frá MS.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert