Einlægni er spennandi

Sunna Sigurðardóttir
Sunna Sigurðardóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sunna Sigurðardóttir fékk draumaverkefnið þegar hún teiknaði myndasögur í verðlaunabók Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Allt með kossi vekur. Hún vinnur nú að sinni fyrstu myndasögubók.

Sunna teiknaði alls þrjár myndasögur í bókina Allt með kossi vekur eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, sem hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011 í flokki fagurbókmennta. Mest áberandi er sagan sem byrjar bókina en myndasaga eftir Sunnu prýðir fyrstu fimmtíu síður bókarinnar eða svo. Myndasagan er áhrifamikil en hún hefst í árdaga ef svo má segja, í aldingarðinum með Adam og Evu.

En hver er uppruni teiknarans?

„Mér þykir leitt að segja það því það er hálfgerð klisja en ég var alltaf að teikna sem barn. Ég man ekki eftir mér öðruvísi,“ segir hún en ef til vill hefur það haft einhver áhrif að móðir hennar, Bryndís Kondrup, er myndlistarkona.

„Ég var alltaf meðvituð um að það væri ekkert of sniðugt að herma eftir og fannst skemmtilegra að reyna að finna uppá einhverju sjálf. Mér fannst gaman að búa til sögur, þetta var alltaf frásagnartengt hjá mér. Ég ætla samt ekkert að blása þetta upp, ég var bara krakki sem fannst gaman að teikna.“

Sunna segist aldrei hafa ætlað sér að verða listakona þegar hún var yngri. „Ég sá það aldrei í hillingum heldur ætlaði ég alltaf að verða eitthvað „lógískt“. Ég var á sálfræðibraut og hafði áhuga á manneskjustúdíum. Svo áttaði ég mig á því að þetta væri stór heimur og það væri mögulega hægt að vinna við þetta. Þá fór ég að skoða hvort maður passaði einhvers staðar inn.“

Það tók Sunnu samt tíma að finna hvar hún passaði inn. Hún fór fyrst í MH en skipti síðan yfir í FB út af listabrautinni. Eftir stúdent fór hún að velta fyrir sér bæði myndlist og hönnun. „Ég fór í listaskóla í Hollandi og var þar í fjögur ár,“ segir hún en skólinn heitir AKI og er í Enschede.

Fékk verðlaun fyrir stól

„Ég valdi mér opna myndlistarbraut og fékk að leita og prófa ýmislegt. Þetta átti ótrúlega vel við mig. Ég tók líka hönnunaráfanga í náminu og vann meira að segja verðlaun fyrir stól. Myndlistin mín færðist alltaf meira og meira í teikningu. Ég var alltaf mest að teikna, þó ég hafi gert stærri myndir og málverk voru þau alltaf í þessum teiknifrásagnarstíl.“

Skólinn byggðist mikið á einstaklingsfrumkvæði og segir Sunna að sér hafi fundist gott að prófa sig áfram en að námi loknu vildi hún fá meiri leiðsögn.

„Eftir þetta sótti ég um í allt öðruvísi skóla. Ég fór til Kanada, komst inn í skóla sem heitir Concordia og er í Montréal,“ segir Sunna sem lagði þar stund á nám í grafískri hönnun.

„Það var í rauninni til að finna teikningunni einhvern stað. Ég tók líka kúrsa í prentverki og bókagerð. Þetta er mjög góður skóli og þarna fékk ég þennan stífa ramma sem mig vantaði. Þetta var hollt og gott og einmitt það sem ég þurfti,“ útskýrir hún.

„Ég áttaði mig á því að ég var ekki að fara að einbeita mér að galleríum. Ég er hrifnari af hugmyndum um fjölföldun, að dreifa verkinu svo margir geti notið þess. Og um leið þurfa ekki að vera andlitið á bakvið verkið, einhver spennandi listatýpa, ég var ekki að upplifa mig þannig. Mér fannst það þægileg tilhugsun að gefa frá mér verk sem geta bara staðið fyrir sínu.“

Sunna lærði að binda inn bækur og dregur fram margar forvitnilegar bækur sem hún gerði á námstímanum í Kanada. Þar af er ein sérstaklega skemmtileg sem er úr tré og í lögun eins og mannshöfuð. Bækurnar eiga það sammerkt að bera einkenni góðs handverks fremur en tölvuvæðingar.

Reynir að gera allt í höndunum

„Ég fæ ekki neitt kikk út úr því að setja upp hlutina. Ég er ekki það tölvuvædd. Ég er dálítið gamaldags þrjósk með það, að ég vil ekki nota tölvur of mikið. Ég teikna allt í höndunum og reyni að gera allt í höndunum. Ég nota ljósaborð í staðinn fyrir að ljósrita, tölvan er alveg síðasta stoppið. Ég er alveg hörð á þessu. Ég vil bara nota hendurnar á mér. Ég trúi því að það sjáist, það er einhver tilfinning sem fylgir því að gera hluti í höndunum sem er ekki eins í tölvunni.“

Eru ekki möguleikar í svona sérstökum bókum núna mitt í tölvuvæðingunni?

„Ég held að það sé í gangi upprisa handverksins almennt. Það er að mörgu leyti skiljanlegt og rökrétt svar við tölvuvæðingunni.“

Sunna var mjög ánægð með skólann í Kanada en neyddist til að hætta eftir nám í einn og hálfan vetur vegna hrunsins en eins og allir vita jukust útgjöld námsmanna í útlöndum um helming á einu bretti.

„Svona er þetta bara. Það var erfitt að koma heim, ég vissi ekki alveg hvað ég ætti að gera. Eftir á að hyggja vil ég meina að þetta hafi verið lán í óláni því eftir dálítinn tíma hérna heima þá bauðst mér þetta tækifæri með bókina hennar Guðrúnar Evu. Það hefði kannski ekki gerst ef ég hefði ekki þurft að koma heim.“

Hún segir myndasögugerðina í Allt með kossi vekur hafa í raun verið „algjört draumaverkefni“.

„Guðrún Eva hafði heyrt um mig og hringdi einn góðan veðurdag og útskýrði að hún væri að leita að teiknara og hvort ég hefði áhuga. Hún var með nokkra teiknara í sigtinu sem fólk hafði verið að benda henni á í tengslum við þetta verkefni. Ég bauð henni bara hingað yfir í kaffi og kökur,“ segir Sunna en henni fannst verkefnið strax hljóma spennandi.

„Ég stóð eftir þetta símtal og hugsaði, vá, hvað þetta hljómar djúsí! Þetta er nákvæmlega það sem mig langar að gera,“ segir Sunna sem hafði lesið bækur Guðrúnar Evu og verið hrifin af þeim.

„Ég hafði ekki tíma til að vera stressuð áður en hún kom. Ég reif fram allar skissubækurnar mínar. Ég var ekkert að ritskoða þær heldur hugsaði, ef hún vill fá mig í þetta verkefni á það að vera byggt á algjörri einlægni. Þetta bara tókst svona vel og við fundum strax að við gátum talað rosalega vel saman. Textinn og hugmyndin í kringum bókina eru frekar flókin. Þetta var svolítið stór biti, nokkuð sem maður þarf að geta lesið úr og skilið á ýmsa vegu. Þetta verkefni krafðist þess strax að það væru góð samskipti og góð tenging okkar á milli.“

Gamli sálfræðiáhuginn fléttast inn í margt sem hún er að gera núna. „Margt í þessu er dálítið samfélagslegt, með vísun í manneskjulegu hliðina, vísun í samfélagsleg gildi og pælingar. Hvað er eðli og hvað er lært? Er raunverulega til eitthvað sem er gott eða illt?“

Hægt að gefa svo margt til kynna

Við lestur myndasagnanna í bókinni er gaman að velta fyrir sér hvernig orð og texti kallast á og hvað það er hægt að segja mikið með mynd.

„Maður getur verið svo lúmskur með myndirnar og ég meina það á góðan hátt! Það er hægt að gefa svo margt til kynna. Þú ert ekki að mata fólk á einu eða neinu. Þeir sem vilja geta fundið ýmislegt, allskonar litlar pælingar. Það er gaman að vinna myndir með texta því í raun á myndin ekki endilega að endurspegla það sem textinn er að segja heldur gefa þér meiri dýpt. Þetta er dálítið viðkvæmt samspil en mjög spennandi.“

Myndasögur fyrir fullorðna eru nokkuð sem Sunna hefur mikinn áhuga á. „Þetta eru engar barnasögur heldur verið að taka fyrir þung málefni með heimspekipælingum. Þetta var mikil vinna. Það liggur mikil vinna á bak við myndskreytingar og myndasögur almennt. Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því. Maður þarf að kynna sér efnið vel. Maður þarf að vita nákvæmlega hvað maður er að fara að segja og ákveða hvernig maður ætlar að tjá það og hvað maður ætlar að gefa í skyn. Það þarf að stúdera efnið mikið fyrirfram.“

Ítarlegt viðtal er við Sunnu í Sunnudagsmogganum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert