Störfum fjölgað um 10% frá hruni

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands mbl.is/Árni Sæberg

Frá efnahagshruni hefur störfum í landbúnaði fjölgað um 10%. Í flestum landshlutum er um fimmta hvert starf tengt landbúnaði og sumstaðar er þriðja hvert starf samofið landbúnaðinum, að sögn Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands.

Búnaðarþing var sett nú laust eftir hádegi í Súlnasal Hótel Sögu. Fjölmenni var við setninguna, m.a. forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ráðherrar, þingmenn, fyrrverandi landbúnaðarráðherrar, fulltrúar erlendra bændasamtaka auk margra helstu embættismanna í landbúnaðarkerfinu.

Það var Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sem setti þingið. Í ræðu sinni talaði hann meðal annars um tækifæri í íslenskum landbúnaði.

„Íslenskir bændur geta og vilja. Íslenskur landbúnaður hefur sýnt styrk sinn og mikilvægi. Frá efnahagshruni hefur beinum störfum í landbúnaði fjölgað um 10%, miðað við atvinnutölur í byrjun árs 2008 og til dagsins í dag.

Landbúnaðurinn er mikilvægur hluti af atvinnulífi landsins. Hann er burðarásinn í atvinnu fjölmargra landshluta. Í flestum landshlutum er um fimmta hvert starf landbúnaðartengt og sumstaðar er þriðja hvert starf samofið landbúnaðinum,“ sagði Haraldur

Hann sagði að afurðaverð fyrir íslenskar landbúnaðarvörur hefði hækkað minna en innfluttur matur og að það væri staðfest að innlend búvöruframleiðsla væri eitt af því sem tryggði samkeppni á matvörumarkaði.

Landbúnaðurinn getur skapað vöxt

„Landbúnaðurinn getur skapað vöxt og störf sem land okkar þarfnast nú eftir efnahagshrunið. Ég segi líka að við þurfum að vera sýnilegri. Við þurfum að segja frá því ævintýri sem landbúnaðurinn er og getur verið. Beinharðar hagtölur og staðlaðir þjóðhagsreikningar eru ágætir að segja ákveðna sögu. En til er frásögn af öðru ævintýri. Íslenski landbúnaðarklasinn - samsettur af bændum og þeim fyrirtækjum öllum sem með einhverjum hætti byggja tilveru sína á starfi bóndans er miklu stærri en okkur er tamt að hugsa um. Tólf þúsund störf eru með beinum hætti tengd landbúnaði, en ef dýpra er skoðað má áætla að störfin séu mun fleiri. Hér er því slegið fram að hlutur okkar í íslensku atvinnulífi sé miklu nær því að vera um fimmtán þúsund störf og 130 milljarða velta á ári. Það munar um minna.“

Haraldur sagði að bændur myndu ekki fjölga störfum eða auka verðmæti landbúnaðarins með sama viðhorfi og hefði ríkt í mörg ár, hugarfari tómætis og sinnuleysis. Hann sagði vísbendingar um að efnahagur bænda væri að styrkjast á ný og að upplýsingar lánastofnana gæfu til kynna að skuldir þeirra væru að lækka.

Haraldur sagði að það kæmi skýrt fram að fólk almennt væri ekki neikvætt gagnvart tollvernd og stuðningi við landbúnað. „Raunar er það öðru nær því jákvæð viðhorf koma líka fram um hvort slíku mætti beita í meira mæli. Stuðningur almennings við að treysta íslenskan landbúnað er meiri en margan grunar,“ sagði Haraldur.

Haraldur nefndi í ræðu sinni að almenningur hefði sterkar skoðanir á notkun aðfanga í búskap og til matvælaframleiðslu. Hann sagði fólk eiga rétt á góðri vöru. Hann sagði brýnt verkefni og um leið atvinnuskapandi að sameinast um frekari vörugæði.

Haraldur sagði að lagaumhverfi landbúnaðarins þyrfti að fá eðlilega endurnýjun. „Sáttin um landbúnað byggist ekki síst á því að umgjörðin virki,“ sagði Haraldur.

Aðildarumsóknin að ESB heldur landbúnaði í höftum

Haraldur sagði að eitt væri sem héldi íslenskum landbúnaði í höftum, en það væri umsóknin að ESB. Hann beindi orðum sínum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingríms J. Sigfússonar:

„Bændur segja því aðeins eitt við þig háttvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra; leiktu þér ekki að eldinum. Þú átt á hættu að aðild verði samþykkt. Gerðu allt sem þú getur til að gæta hagsmuna Íslands. Ekki fyrir bændur heldur fyrir framtíð þjóðarinnar. Ef það er svo að íslenskir samningamenn þora ekki að ganga fram með sterka kröfugerð eigum við að sitja heima og viðurkenna að klúbburinn hentar okkur ekki og það er tímabært núna.“

Þingfulltrúar eru 47, víðsvegar af landinu. Formleg þingstörf hefjast í fyrramálið, en þau munu taka þrjá daga og áætlað að þinginu ljúki á miðvikudag.

Frá Búnaðarþingi í dag
Frá Búnaðarþingi í dag mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert