Ætti fremur að glíma við byrjanda

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég legg nú til að háttvirtur þingmaður Birgir Ármannsson glími við einhvern byrjanda í þingmennsku en ekki þann sem hér stendur, ef hann heldur að hann geti veitt mig í svona auðveldar gildrur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra, við umræður á Alþingi í dag.

Áður hafði Birgir, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurt ráðherrann út í orð sendiherra Íslands í Brussel sem boðist hefur til að kenna Evrópusambandinu hvernig haga beri sjávarútvegsmálum. Birgir spurði Steingrím hvort kennslan væri í því fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði eða því sem er á teikniborðinu.

Steingrímur sagðist telja það almennt viðhorf að fiskveiðistefna ESB þarfnaðist endurskoðunar. Hann sagðist ekki hafa upplýsingar um það hvernig sendiherrann hygðist standa að sinni kennslu en að ESB hefði eflaust gagn af því að skoða ýmislegt í fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga, eins og það er. „Ég tala nú ekki um ef okkur tekst nú vel til við að betrumbæta það, og sníða af því ýmsa ágalla sem hafa verið umdeildir og fylgt því lengi, kerfinu. Vonandi gætum við þá veitt Evrópusambandinu í framhaldinu ráðgjöf á grundvelli ennþá betra fiskveiðistjórnunarkerfis sem við værum búin að lagfæra ef okkur vinnst vel í þeim efnum á næstu mánuðum.“

Birgir greip orð ráðherrans á lofti og sagði svar hans gefa tilefni til að spyrja hvort þær hugmyndir sem væru á teikniborðinu sneru fyrst og fremst að lagfæringum á núverandi kerfi. Hann sagði að ráða hefði mátt af ummælum talsmanna ríkisstjórnarflokkanna að um væri að ræða gerbreytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Nú sé talað um að sníða af því agnúa og lagfæra. „Það er dálítill munur þar á.“

Eftir ræðu Birgis lagði Steingrímur til að hann glímdi við einhvern óreyndari. „Það liggur alveg fyrir hvaða grundvallabreytingar menn hafa rætt um að gera á þessu kerfi. Það varðar að ganga frá hver á þessa auðlind, festa það í lög og stjórnarskrá - og í framkvæmd. Skilgreina réttinn, að það sé afnotaréttur en hvorki bein og óbein eign, og láta menn borga afgjald.“ Þetta sagði Steingrímur að væra uppistaðan en auðvitað kæmi meira til.

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert