Íslendingar sýndu hugrekki

Frá fundi leiðtoganna í Singapúr. Báðir hafa þeir doktorsgráðu.
Frá fundi leiðtoganna í Singapúr. Báðir hafa þeir doktorsgráðu. Ljósmynd/Forsetavefurinn/forseti.is

Íslenskur almenningur sýndi hugrekki með því að hafna Icesave-samningnum tvívegis í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er skoðun dr. Tony Tan Keng Yam, forseta Singapúr. Fjallað er um Icesave-kosningarnar á kanadískri vefsíðu.

Eins og komið hefur fram fundaði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, með forseta Asíuríkisins fyrir helgi.

Er þeim þætti viðræðnanna er snýr að Icesave-deilunni lýst með þessum hætti:

„Þá kom fram á fundinum mikill áhugi forseta Singapúr á endurreisn efnahagslífsins á Íslandi í kjölfar bankahrunsins. Hann kvað afar athyglisvert að Íslendingar hefðu á margan hátt farið aðrar leiðir en rétttrúnaður á vettvangi hins alþjóðlega fjármálakerfis hefur boðað.

Höfnun Icesave-saminganna í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum hefði vakið athygli og aðdáun víða um veröld. Sú ákvörðun hefði sýnt hugrekki og sterkan lýðræðislegan vilja lítillar þjóðar.“

Fjallað um íslensku viðreisnina

Á kanadíska fréttavefnum Maclean's er þeirri spurningu velt upp hvort leið Íslendinga út úr efnahagskreppunni feli í sér fordæmi fyrir aðrar þjóðir.

Vitnað er í viðtal BBC við forseta Íslands um að því hafi verið spáð að Ísland breyttist í „Kúbu norðursins“ ef Icesave-samningunum yrði hafnað.

Þá er rætt við Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sem lýsir kostum og göllum á gjaldeyrishöftunum.

Greinina á vef Maclean's má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert