Betra að klára viðræðurnar

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson. Eggert Jóhannesson

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar, sagði á Alþingi í dag að það væri vilji flokksins að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið eins fljótt og auðið væri og kjósa um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kom fram í svari Árna við spurningu Ásmundar Einars Daðasonar í umræðu um störf þingsins en Ásmundur vildi fá að vita hver stefna Vinstri grænna væri í málinu og hver hún yrði fyrir næstu kosningar.

Spurði hann hvort klára ætti málið á næstu 6-8 mánuðum eða draga það fram á næsta kjörtímabil.

Árni Þór sagði að stefna flokksins væri skýr en þjóðin ætti að fá að kjósa um málið. Ýmislegt hefði tafið viðræðurnar, bæði Evrópusambandsmegin en einnig hér heima. Betra væri að klára ferlið og kjósa svo en að ákveða dagsetningu til að kjósa um málið án tillits til þess hvar það væri statt í ferlinu.

Sagði hann þó að ef viðræðurnar yrðu strand efnislega kynni að þurfa að taka málið aftur upp á þingi og taka afstöðu til þess hvort menn vildu halda áfram miðað við þá stöðu sem þá væri komin upp.

Magnús Orri Schram, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði það að einhverju leyti heimatilbúinn vanda að viðræðurnar hefðu ekki gengið eins hratt og stefnt var að. Hann sagði það afar vonda samningatækni að gefa það út að viðræðunum þyrfti að vera lokið fyrir ákveðinn tíma.

Sagðist hann vona að þingið væri sammála um að vinna saman að því að reyna að ná eins góðum samningi og hægt væri til að færa þjóðinni til atkvæðagreiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert