Vilja að tillögunni verði vísað frá

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kom saman til fundar í morgun.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kom saman til fundar í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis leggur til að tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, verði vísað frá.

„Við leggjum til að málinu verði vísað frá og til vara að tillagan verði felld. Við leggjum sem sé til að ákæran standi,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar.

Níu sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Meirihluta í nefndinni mynda Valgerður Bjarnadóttir, Magnús Orri Schram, Lúðvík Geirsson, Róbert Marshall, Álfheiður Ingadóttir og Margrét Tryggvadóttir, en þau vilja að tillögunni verði vísað frá.

Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal vilja að tillaga Bjarna Benediktssonar verði samþykkt. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sem einnig á sæti í nefndinni, skilar sérstöku áliti.

Valgerður sagði að frávísunartillaga fæli í sér að fyrst yrðu greidd atkvæði um hana. Ef hún yrði samþykkt kæmi tillaga Bjarna ekki til atkvæða. Ef hún yrði felld yrðu greidd atkvæði um tillögu Bjarna.

Aðalmeðferð í málinu gegn Geir fyrir Landsdómi á að hefjast 5. mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert