Mun kalla menn til ábyrgðar

Gunnar Andersen, forstjóri FME.
Gunnar Andersen, forstjóri FME. Árni Sæberg

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, vill fá svar fyrir klukkan fjögur á morgun um það hvort stjórn Fjármálaeftirlitsins muni hætta við uppsögn hans. Hann segir að réttindi sín sem opinbers starfsmanns hafi verið virt að vettugi í yfirstandandi brottrekstrarferli.

Þetta kemur fram í bréfi sem lögmaður Gunnars, Skúli Bjarnason, sendi fyrir hönd Gunnars til stjórnar Fjármálaeftirlitsins í dag. 

Fjármálaráðherra úrskurðaði í dag að Gunnar væri embættismaður og nyti réttinda sem slíkur.

Í bréfinu kemur fram að Gunnar líti brotin gegn sér mjög alvarlegum augum og muni kalla menn til ábyrgðar á því. „Það sem mestu máli skiptir hins vegar í augnablikinu er að fá botn í þann farsa sem því miður hefur staðið allt of lengi, öllum til tjóns,“ segir í bréfinu.

„Vinsamlegast svarið eigi síðar en kl. 16 fimmtudaginn 1. mars n.k., en umbjóðandi minn mun bíða með frekari aðgerðir þangað til,“ segir í bréfinu, sem er undirritað af Skúla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert