Siglt verði allt árið í höfnina eftir tvö ár

Herjólfur í Landeyjahöfn. Síðustu vikurnar hefur ferjan siglt til Þorlákshafnar.
Herjólfur í Landeyjahöfn. Síðustu vikurnar hefur ferjan siglt til Þorlákshafnar. mbl.is/GSH

Árni Johnsen alþingismaður segir að Siglingastofnun stefni að því að árið 2014 verði búið að gera breytingar á Landeyjahöfn sem dugi til að hægt verði að nota höfnina allt árið. Samhliða vonast hann eftir að þá verði ný ferja að koma til landsins.

Árni segir að þetta hafi komið fram á fundi sem hann átti með stjórnendum hjá Siglingastofnun.

Árni segir að á fundinum hafi komið fram að forsendur sem lagðar voru til grundvallar við hönnun Landeyjarhafna hafi ekki staðist að tvennu leiti. Annars vegar hafi mikil aska farið í sjóinn í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli og hún hafi borist inn í höfnina. Hins vegar hafi forsendur um strauma ekki staðist. „Við Suðurströndina er venjulega vesturfall, en komið hefur á daginn að í þrálátum vestanáttu snýst fallið við á þessu svæði. Það hefur valdið vanda við tilfærslu á sandinum,“ segir Árni.

Árni segir að það séu ákaflega erfiðar aðstæður við Suðurströndina og ekkert skrítið að það komi upp skekkja í útreikningum.

Árni segir að Siglingastofnun ætli í haust að byggja nýtt líkan að Landeyjahöfn og gera þar prófanir til að hjálpa mönnum að átta sig á hvað sé best að gera. „Menn tala um að það sé fyrst og fremst tvennt sem þurfi að gera, annars vegar að gera einhverjar breytingum á görðum til að reyna að stýra hreyfingum sandsins og hins vegar þurfi að koma fyrir í innsiglingunni föstum dælubúnað.

Ef vel gengur ætti höfnin að komast í upprunalegt horf, um nýtingu allt árið, árið 2014, en þá vonast maður líka eftir að samhliða komi ný ferja til landsins,“ sagði Árni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert