Telur tillöguna ekki vera þingtæka

mbl.is/Hjörtur

Magnús Norðdahl, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði grein fyrir afstöðu sinni til þingsályktunartillögu um afturköllun á landsdómsákærunni gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, á Alþingi í dag. Sagðist hann sammála niðurstöðu meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins sem hann á sæti í um að vísa bæri tillögunni frá en sagðist hins vegar þeirrar skoðunar að tillagan hefði aldrei átt að vera tekin fyrir þar sem hún væri ekki þingtæk.

Magnús skilaði séráliti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en þar kemur fram sú afstaða hans að Alþingi geti ekki átt frumkvæði að því að fella niður saksókn vegna ákæru fyrir Landsdómi. Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þingið hefði heimild til þess að afturkalla ákæru vegna máls sem höfðað hefði verið fyrir landsdómi.

Talsverð umræða skapaðist í kjölfar ræðu Magnúsar þar sem tekist var á um það hvort Alþingi hefði slíka heimild og ennfremur hvort rétt væri að falla frá ákærunni. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði áherslu á að þingmenn sem ákærendur í málinu yrðu að leggja mat á það hver og einn hvort þeir teldu rétt að halda ákærunni til streitu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert