Tjáir sig ekki um ráðherraúrskurð

mbl.is/Sigurgeir

„Við höfum móttekið þetta bréf, nú erum við að skoða málið og það er ótímabært að tjá sig um það,“ segir Aðalsteinn Leifsson, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, um það mat Oddnýjar Harðardóttur fjármálaráðherra að Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, hafi réttarstöðu sem opinber starfsmaður.

Aðalsteinn vildi ekki segja til um hvaða áhrif þetta mat ráðherra hefði á vinnslu málsins hjá stjórn FME og sagðist harma að málið væri orðið jafn stór hluti af opinberri umræðu og raun bæri vitni.

Spurður um bréf stjórnar FME til lögmanns Gunnars, þar sem stendur að það sé mat stjórnarinnar að forstjóri FME geti ekki lagt mat á hugsanleg brot annarra eða hæfi þeirra vegna afstöðu sinnar í fyrri störfum, en þar er átt við aðild Gunnars að aflandsfélögum á vegum Landsbankans á meðan hann starfaði þar, segir Aðalsteinn að hann vilji ekki tjá sig um bréfið eða innihald þess.

„Ég lít svo á að öll samskipti okkar séu trúnaðarmál og ég vil ekki tjá mig um þessi samskipti að neinu leyti,“ sagði Aðalsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert