Stjórnvöld rýna í gengislán

Samráðshópi um eftirfylgni dóms Hæstaréttar var komið á fót 22. …
Samráðshópi um eftirfylgni dóms Hæstaréttar var komið á fót 22. febrúar síðastliðinn. mbl.is

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hyggst fá tvo óháða lögfræðinga til þess að rýna í álit lögmannsstofunnar Lex um lögfræðileg álitaefni vegna dóms Hæstaréttar 15. febrúar síðastliðinn um gengislán. Sú álitsgerð var unnin að ósk Samtaka fjármálafyrirtækja.

Samráðshópi um eftirfylgni dóms Hæstaréttar var komið á fót 22. febrúar síðastliðinn. Í honum eiga sæti fulltrúar efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, sem leiðir starfið, forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka Íslands og Samtaka fjármálafyrirtækja.

Samráð verður haft við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, velferðarráðuneytið, embætti umboðsmanns skuldara og talsmann neytenda.

Helstu verkefni hópsins eru að greina dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar síðastliðnum og fara yfir spurningar sem kunna að vakna við greininguna og leggja fram tillögur að viðbrögðum. 

Gert er ráð fyrir því að samráðshópurinn skili efnahags- og viðskiptaráðherra greinargerð eigi síðar en 1. apríl næstkomandi.

Fjármálaeftirlitið hefur einnig kallað eftir upplýsingum frá bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum til þess að geta lagt mat á áhrif dómsins á eiginfjárstöðu fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að svör fjármálafyrirtækjanna berist eigi síðar en 15. mars næstkomandi.

Þar sem enn er óljóst hvert fordæmisgildi dómsins verður þykir rétt að gera ráð fyrir mismunandi forsendum sem leiða ýmist til mikilla eða lítilla áhrifa á eiginfjárstöðu bankanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert