Lést í bruna í Ólafsvík

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður á fertugsaldri lést í bruna í Ólafsvík í nótt. Slökkvilið Snæfellsbæjar fékk tilkynningu um eld í íbúðarhúsi um kl. 2:20, en þá var húsið fullt af reyk sem hafði greinilega kraumað í talsverðan tíma.

Slökkviliðið var fljótt á staðinn og voru tveir reykkafarar sendir inn í efri hæð hússins og fundu þeir manninn meðvitundarlausan. Kallað var á lækni og eftir björgunarþyrlu. Lífgunartilraunir voru reyndar á staðnum en þær skiluðu ekki árangri. Maðurinn var fluttur á heilsugæslustöðina og var þar úrskurðaður látinn.

Íbúðarhúsið er lítið sérbýli. Húsið sjálft er úr timbri, en undir því er steyptur kjallari. Reykkafarar fóru einnig inn í kjallarann, en þar var enginn.

Að sögn Ólafs Guðmundssonar, yfirlögregluþjóns í Ólafsvík, var lítill eldur í íbúðinni, en mikill reykur og gríðarlegur hiti. Hann segir að vel hafi gengið að slökkva eldinn, en húsið sé mikið skemmt af reyk og sóti.

Lögreglan hefur óskað eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn á orsök brunans. Ólafur vill ekki tjá sig um eldsupptök fyrr en tæknideildin hefur rannsakað málið.

Það var íbúi í nágrenninu sem lét lögreglu vita um eldinn.

Hinn látni var íbúi í húsinu og bjó einn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert