Sendir áfram út óbreytta innheimtuseðla

mbl.is/Hjörtur

„Landsbankinn mun áfram senda út greiðsluseðla vegna umræddra lána þó svo að óvissa kunni að ríkja um hvort lán falli undir fordæmisgildi dómsins,“ segir í yfirlýsingu frá Landsbankanum vegna dóms Hæstaréttar Íslands um gengislán 15. febrúar síðastliðinn. Eru greiðendur hvattir til þess að inna af hendi greiðslur á réttum tíma og vísað í dóminn þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að standa í skilum.

„Landsbankinn mun hins vegar bíða með lögfræðiinnheimtu (fullnustuaðgerðir) vegna viðkomandi lána þar til niðurstaða bankans um stöðu lánanna liggur fyrir. Ef niðurstaðan verður sú að lán verði endurreiknað eftir greiðslu mun innheimta til framtíðar að sjálfsögðu taka mið af leiðréttum eftirstöðvum. Hugsanlegar ofgreiðslur verða þannig leiðréttar,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Fram kemur að það sé mat Landsbankans að óljóst sé af dómi Hæstaréttar hvernig standa eigi að endurreikningi þeirra lána sem dómurinn eigi við um. „Endanleg og skuldbindandi niðurstaða veltur á frekari dómum Hæstaréttar. Þá munu frekari dómar vonandi varpa ljósi á þær aðferðir sem beita á við endurreikninginn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert