Sendiherra bannað að ræða um upptöku Kanadadollars

Reuters

Sendiherra Kanada á Íslandi, Alan Bones, mun ekki verða á meðal ræðumanna á fundi um gjaldmiðlamál Íslendinga sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað til í dag eftir að kanadíska utanríkisráðuneytið setti honum stólinn fyrir dyrnar í þeim efnum. Þetta kemur fram á fréttavef kanadíska dagblaðsins The Toronto Star.

Bones hafði áður tekið vel í hugmyndir um að Ísland tæki upp kanadíska dollarann í stað íslensku krónunnar og sagt Seðlabanka Kanada reiðubúinn að ræða málið ef vilji væri fyrir því á meðal Íslendinga. Meðal annars í útvarpsviðtali í Ríkisútvarpinu í gær.

Fram kemur í fréttinni að eftir að málið varð að fréttaefni, meðal annars í Kanada, hafi stjórnvöld í Kanada sent frá sér tilkynningu í gær þar sem fram hafi komið að Bones myndi „ekki taka þátt í íslenskri ráðstefnu á morgun [í dag] um gjaldmiðlamál og ekki tjá sig um málið“.

Málið mun hafa valdið talsverðum titringi í kanadíska utanríkisráðuneytinu. Vandamálið snýr einkum að því að íslensk stjórnvöld hafa ekki viðrað slíkar hugmyndir. Að sögn talsmanns utanríkisráðuneytisins, Ians Trites, er um að ræða mál íslenskra stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar.

Á fréttavef The Globe and the Mail er haft eftir fjölmiðlafulltrúa utanríkisráðherra Kanada, Joseph Lavoie, að eftir að ráðuneytið hafi frétt af málinu og það fór í gegnum samþykktarferli þess hafi niðurstaðan verið sú að það væri ekki viðeigandi að Bones flytti ræðuna.

„Þetta er pólitískur atburður. Þannig að sú ákvörðun var tekin að það væri ekki við hæfi að hann talaði á honum. Þótt hann kunni að hafa haft í huga að koma þessum skilaboðum á framfæri þá verður það ekki,“ segir Lavoie.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert