Frumkvæðið ekki framsóknarmanna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is

„Ég heyrði þetta bara í fréttunum í gær og átti ekkert von á því,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is en hann segir að flokkurinn hafi ekki óskað eftir því að sendiherra Kanada, Alan Bones, tjáði sig um mögulega upptöku á kanadíska dollaranum á fundi framsóknarmanna um gjaldmiðlamál Íslendinga sem fram fer í dag. Sendiherrann sagði í fjölmiðlum fyrir helgi að sá möguleiki kæmi vel til greina ef Íslendingar hefðu áhuga á því.

„Hann var beðinn bara um að setja ráðstefnuna og segja nokkur orð í upphafi. Ég átti frekar von á því að það yrðu bara nokkur vinsamleg orð um samskipti Íslands og Kanada í gegnum tíðina,“ segir Sigmundur. Hann segist þó hafa spjallað við sendiherrann áður um þennan möguleika. „En það kom mér mjög á óvart að hann skyldi fara í þessi viðtöl og vera svona afdráttarlaus.“

Eins og mbl.is hefur greint frá tilkynnti kanadíska utanríkisráðuneytið í gær að Bones myndi ekki flytja erindi á fundinum þar sem um pólitískan atburð væri að ræða og því ekki við hæfi að hann ræddi málið á þeim vettvangi. Þá er haft eftir talsmönnum ráðuneytisins í kanadískum fjölmiðlum að nauðsynlegt sé að það liggi fyrir að það sé vilji bæði íslenskra stjórnvalda og almennings að taka upp Kanadadollar til þess að hægt sé að ræða þann möguleika.

Sigmundur segir að Bones hljóti að hafa verið í eðlilegu sambandi við sína yfirmenn í utanríkisráðuneyti Kanada. „Maður skyldi ætla það. Hann er allavega búinn að fylgjast með þessu máli lengi.“ Hann segir að það sé þannig langur aðdragandi að þessu og alls ekki svo að sendiherrann hafi aðeins hringt í Seðlabanka Kanada fyrir helgi. „Maður fær það bara á tilfinninguna að það sé verið að bregðast við símtali frá Össuri.“

„Það er annars rétt að ítreka það að við erum ekkert að berjast fyrir upptöku Kanadadollars sérstaklega heldur erum við einfaldlega að reyna að hvetja til umræðu um mismunandi kosti í gjaldmiðlamálum Íslendinga,“ segir Sigmundur ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert