Þurfum alþjóðlega peningastefnu

Arnaldur Halldórsson

Gjaldeyrishöftin drepa fjárfestingar og nauðsynlegt er að aflétta þeim. En erfitt er að gera það án þess að skipta um gjaldmiðil. Þetta sagði Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur í Silfri Egils á RÚV  í dag. Hann segir að taka þurfi upp alþjóðlega peningastefnu.

„Gjaldeyrishöftin virka í þveröfuga átt við það sem til var ætlast. Þau drepa fjárfestingar, þannig að þær eru í sögulegu lágmarki og skuldirnar aukast,“ sagði Heiðar. „Verðbólga er meiri en spáð var, þó við séum í þessu haftaumhverfi.“

„Ástæðan er sú að mikið er til af óþolinmóðu fé og reyndar þolinmóðu líka í eigu lífeyrissjóðanna. Það fer beint inn í neysluverðstöluna og það hækkar strax verðbólguna. Í rauninni er til mikið af fjármagni að berjast um fáar fjárfestingar,“ sagði Heiðar.

Heiðar segir þetta geta endað með hruni. „Skoðum áætlanir Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins; þeir eru svartsýnni en þegar þeir yfirgáfu landið síðasta sumar. Afgangur af viðskiptunum við útlönd er mun minni en áætlanir stóðu til, innstreymi gjaldeyris er minna og það leiðir til þess að það er erfiðara að greiða af erlendum skuldum.“

„Við megum engan tíma missa. Leiðin út úr þessu er að afnema höftin með einhverjum hætti.“

Heiðar segir að við afnám haftanna gæti komið mikill verðbólguskellur. „Það gæti orðið mikil óvissa, ef þeim væri kippt af með ónýtri peningastefnu. En hagfræðingar segja að einfaldasta málið sé að skipta um peningastefnu, taka upp alþjóðlega peningastefnu. Þá vinnst það að höftin fara, en það er hægt með krónunni, en hættan er mjög mikil. Það er erfitt nema tekin sé upp alþjóðleg mynt.“ 

Heiðar sagði nauðsynlegt að skipta um peningastefnu. „Peningastefnan er bæði með belti og axlabönd en hún virkar ekki.“

Heiðar benti á að slitastjórnir bankanna hafi átt um 270 milljarða í krónum. Þær hafi verið notaðar m.a. til að greiða erlendum kröfuhöfum og það hafi átt þátt í að veikja krónuna. „Ef við skiptum um mynt, þá verða allar eignir bankanna í henni, og þá eru menn komnir með aðgang að þeirri mynt sem þeir skulda í,“ sagði Heiðar.

Hann segir Kanadadollar raunhæfan kost, en einn kostur útiloki ekki aðra.

Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur.
Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert