Notuðu viljandi loðið orðalag

Frá landsdómi í dag
Frá landsdómi í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði fyrir landsdómi að hann væri þeirrar skoðunar að engin ríkisábyrgð væri á Tryggingarsjóði innstæðueigenda. Hann sagði að á árinu 2008 hefðu íslensk stjórnvöld viljandi sent frá sér óljóst orðaðar yfirlýsingar til Bretlands um þetta mál til að forðast að valda ágreiningi um málið við Breta.

Geir sagði alveg skýrt í sínum huga að ekki væri ríkisábyrgð á sjóðnum. Menn hefðu hins vegar rætt um að hugsanlegt væri að ríkið myndi styðja sjóðinn með lánafyrirgreiðslu. Geir var minntur á yfirlýsingar sem hann gaf árið 2008 um að stjórnvöld myndu gera það sem ábyrg stjórnvöld í öðrum löndum hefðu gert til að styðja bankakerfið. Geir sagði að hann hefði átt við að gert yrði eins og síðar var gert þegar Glitnir leitaði til stjórnvalda um aðstoð. Bankinn hefði fengið fyrirgreiðslu, en aldrei hefði staðið til að reynt yrði að standa á bak við allt bankakerfið.

Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari vitnaði í minnisblað frá Árna Mathiesen fjármálaráðherra þar sem hann segir að Bretar myndu aldrei sleppa okkur með að borga ekki fyrir þær skuldbindingar sem hefðu hlaðist upp vegna Icesave-reikninganna.

Geir var spurður um bréf sem íslensk stjórnvöld sendu á árinu 2008 til Bretlands. Geir sagði að orðalag í þessum tveimur bréfum hefði verið „loðmullulegt“. Ekki hefði verið viðurkennt að ríkisábyrgð hefði verið á sjóðnum, en menn hefðu líka komið sér hjá því að taka af  skarið um að engin ríkisábyrgð hefði verið á innlánsreikningunum. Menn hefðu á þessum tíma ekki viljað efna til ágreinings um þetta við stjórnvöld í Bretlandi. Bréfin hefðu hins vegar verið of loðin að mati Bretanna.

Kröfur Breta varðandi Icesave-reikninganna á árinu 2008 voru nokkuð ræddar í landsdómi í dag. Fram eftir ári voru ræddar leiðir til að koma þessum reikningum yfir í dótturfélag Landsbankans í Bretlandi. Kröfur Fjármálaeftirlitsins í Bretlandi í þessu máli voru alltaf að aukast eftir því sem leið á árið.

Verjandi Geirs spurði hann hvernig hann túlkaði þessar kröfur og hvort gæti verið að Bretar hefðu í reynd ekki viljað taka við ábyrgð á Icesave-reikningunum. Geir sagði það vel hugsanlegt. Geir lagði áherslu á að hann hefði verið í góðri trú um að menn væru að vinna í þessu máli og að góðar líkur væru á að tækist að færa þessa reikninga frá Landsbankanum fyrir lok október 2008 eða í síðasta lagi fyrir árslok.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert