Vissi ekki af Icesave-reikningum

Geir H Haarde
Geir H Haarde hag / Haraldur Guðjónsson

Saksóknari vék að stofnun Icesave-reikninga í Hollandi, sem Landsbankinn hóf að bjóða upp á í lok maí 2008. Geir sagðist ekki hafa haft neina sérstaka vitneskju um þessa reikninga. Þetta kom fram við aðalmeðferð landsdómsmálsins gegn Geir, sem hófst í morgun.

Hún sagði að vöflur hefðu komið á hollensk stjórnvöld haustið 2008 og fjármálaeftirlitið þar hefði viljað setja hömlur á þá. Hún spurði Geir að því hvaða vitneskju hann hefði haft um aðdraganda að stofnun þessara reikninga.

„Ég hafði enga sérstaka vitneskju um það, þeir tilkynntu þetta til Fjármálaeftirlitsins og síðan opnuðu þeir bara,“ sagði Geir og sagði það hafa verið lögum samkvæmt. „En þetta rak ekkert á mínar fjörur sem eitthvert mál sem ég átti að taka afstöðu til. Kerfið var bara eins og það var, og maður sér eftir á að það var auðvitað meingallað að menn gætu vaðið svona í stofnun þessara reikninga, án þess að hafa einhvern sérstakan bakhjarl fyrir því.“

Geir sagðist hafa haft áhyggjur af Landsbankareikningunum í Bretlandi og fylgst grannt með þeim. „Það stóðu ekki traustar eignir á móti þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert