Nýr Landspítali allt of stór

Aðalbygging Landspítalans var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni arkitekt og hefur …
Aðalbygging Landspítalans var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni arkitekt og hefur verið meðal helstu kennileita borgarinnar frá 1930. Mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Byggingamagnið sem menn ætla að setja inn á þennan reit er einfaldlega allt of mikið,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skipulagsráði, um tillöguna sem er efst á blaði yfir nýjan Landspítala við Hringbraut. Hann segir marga lækna furða sig á byggingamagninu. Til stóð að afgreiða málið í skipulagsráði borgarstjórnar í dag en því var frestað til næstu viku.

Nýr Landspítali hefur verið á prjónunum í nokkur ár og hefur verið farið í gegnum ýmsar útfærslur á byggingu hans. Tillagan sem nú er á borðinu er afrakstur hönnunarsamkeppni árið 2010, en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að byggja ofan á Gömlu Hringbraut og svæðinu framan við Aðalbyggingu Landspítalans. Heildarfermetrafjöldi nýbygginga verður um 235.000 fm, en fyrir eru 60.000 fm.

Tvær og hálf Smáralind í Þingholtin

Ekki eru allir á eitt sáttir um þessa útfærslu. Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt hana er Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir á Landspítala. Líkt og fram kom í frétt Mbl.is í liðinni viku telur Páll Torfi deiliskipulagið of stórt og að umfang þess skaði borgarlandslagið. Þá skrifaði Steinn Jónsson, formaður Læknafélagsins, grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann hafnaði þeim rökum að málið væri komið of langt til að breyta af leið, höfuðmáli skipti að sátt skapist um nýjan Landspítala.

Gísli Marteinn er á sama máli, fyrst og fremst vegna byggingamagnsins. „Landspítalinn við Hringbraut er núna um það bil 60 þúsund fermetrar. Borgarspítalinn í Fossvogi er 30 þúsund fermetrar. Markmiðið er að sameina þessa tvo spítala, en í staðinn fyrir að byggja sem nemur einum Borgarspítala, svo úr því verði 90 þúsund fermetrar, þá ætlum við að byggja sem nemur fimm Borgarspítölum,“ segir Gísli Marteinn.

Samanlagt verður nýr Landspítali samkvæmt þessari tillögu 290.000 fm að stærð. „Margir furða sig á því, meðal annars læknar sem þarna starfa, að það þurfi að byggja svona stórt. Til að setja þetta í eitthvert samhengi erum við að fara að byggja tvær og hálfa Smáralind við þær byggingar sem fyrir eru.“

Gamla Hringbraut hverfur

Gísli Marteinn bendir á að fyrir vikið þurfi t.d. að leggja niður gömlu Hringbraut, sem var hönnuð á 4. áratug síðustu aldar, m.a. út frá þeirri hugmynd að halda sjónlínu milli tveggja kennileita, aðalbyggingar Landspítalans og aðalbyggingar Háskóla Íslands. Forsögn skipulagsráðs Reykjavíkurborgar hafi áður verið að leggja ætti áherslu á að halda gömlu Hringbraut, en nú hafi verið vikið frá því.

Hann bendir jafnframt á að fyrir nokkrum árum hafi sænsk arkitektastofa, White Arcitechts í Gautaborg, lagt fram tillögu ekki ósvipaða Páls Torfa, um að byggja nýja spítalann norðan gömlu Hringbrautar. Gísli Marteinn segist sannarlega þeirrar skoðunar að það eigi að byggja nýjan spítala og hann eigi að vera við Hringbraut. „En við eigum ekki að gera það svona risastórt heldur eigum við að fylgja ráðleggingum erlendra sérfræðinga og byggja upp minna, fyrir norðan gömlu Hringbraut .“

Skipulagsráð Reykjavíkurborgar fundar næst í næstu viku og telja má líklegt að nýr Landspítali verði þá aftur til umræðu.

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert