Af þingi á skólabekk

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson mbl.is

„Ég er búinn að fá inni í Háskólanum í Leeds í Englandi við meistaranám í stjórnmálafræði og fer þangað í haust,“ segir Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, en frá ársbyrjun 2010 hefur hann verið í fjarnámi við Háskóla Íslands í ensku og þýsku. Vonast hann til að ljúka því námi í vor.

Hann segir háskólann á Englandi einnig bjóða upp á námið í formi fjarkennslu og væri þannig hægt að ljúka því með vinnu á tveimur árum. Hann ætlar hins vegar að ljúka náminu á einu ári og reiknar með því að fara einn út því eiginkona hans er bundin við störf sín hjá borginni.

Námið sem Kristinn hefur valið sér við stjórnmálafræðideildina í Leeds nefnist Political Theories og fara nemendur mjög vel ofan í kenningar og fræði tengd stjórnmálum. 

„Það er svo mikið umrót núna í pólitíkinni og verður það á næstu árum. Bæði eru að koma fram nýir flokkar en einnig þurfa gömlu flokkarnir sem fyrir eru að breytast til þess að halda velli,“ segir Kristinn og bætir við að tímarnir framundan séu spennandi og því sé gott að mennta sig vel á þessu sviði.

Hann segir stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands bjóða upp á mjög gott nám en hann valdi Háskólann í Leeds vegna þess að stjórnmál verða sífellt alþjóðavæddari.

„Það er bara nauðsynlegt að kynna sér líka stjórnmálin erlendis. Hvort sem Íslendingar ganga í Evrópusambandið eða ekki þá verður þróunin sú að æ meira af samskiptum á stjórnsviði fer fram við útlönd. Íslenskir stjórnmálamenn þurfa að geta átt í þeim samskiptum sér til gagns í því starfi sem þeir eru í,“ segir Kristinn en hann telur einmitt veikasta hlekk íslenskra stjórnmálamanna vera litla tengingu við erlenda strauma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert